Innlent

„Ég ætla mér að stytta framhaldsskólana og mun gera það“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
VÍSIR/GVA
„Ég ætla mér að stytta framhaldsskólana og mun gera það. Ég mun fara þessa leið og ég vil gjarnan nota þetta til þess að búa til launahækkunarmöguleika fyrir kennara vegna þessara breytinga. Ég held að núna sé tækifærið og ég auðvitað bara vona að menn grípi það,“ segir Illugi Gunnarsson, mennta- og menningamálaráðherra. Illugi var gestur Bubba Morthens í þættinum Stál og hnífur í gærkvöld. Hann benti þar á að nám til stúdentsprófs á Íslandi væri lengra en í öðrum OECD löndum og að Íslendingar lykju því háskólanámi seint.

Hann segir að með því að stytta námið um eitt ár muni tími nemenda nýtast betur og segir þetta muna um fyrir hvern og einn einstakling og tími íslenskra nemenda sé alveg jafn verðmætur og tími nemenda í öðrum löndum. Hann segir því engin rök vera til fyrir því að Íslendingar einir þjóða ættu að eyða fjórtán árum í undirbúning fyrir háskólanám. Þá segir hann að með þessu verði hagræðing hjá ríkinu.

„Ég vil nota þetta sem innlegg í kjaraumræðuna núna til þess að reyna að hækka umfram þessi 2,8% sem annars eru bara í boði af því að við vitum hvað búið er að gerast á almenna markaðnum.“ Þá segir hann ríkið ekki geta gengið neitt lengra í kauphækkun heldur en almenni markaðurinn nema það verði einhver kerfisbreyting. “

Illugi segir að skoðanakannanir hafi leitt í ljós að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar sé þeirrar skoðunar að stygga eigið námið.

„Þetta þýðir að starfsævi þeirra sem ganga menntaveginn lengist um að minnsta kosti eitt ár og þetta skiptir bara verulegu máli.“

„Þetta er eitthvað sem verður.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×