Innlent

Næsta mynd Baltasars verður Vikings

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Anton Brink
Næsta verkefni Baltasars Kormáks, eftir myndina Everest, verður kvikmyndin Vikings, en hann hefur lengi unnið að gerð þeirrar myndar. Í samtali við Variety segir Baltasar að myndin verði tekin upp á Íslandi og líklega á ensku.

„Þetta verður ekki hefðbundin víkingasaga, því við munum sýna víkinga eins og þeir hafa aldrei verið sýndir áður. Víkingar voru grimmir, en þeir voru einnig menntað fólk. Þeir voru sölumenn, viðskiptamenn sem fóru í víking þegar viðskiptin döluðu. Þess vegna áttu þeir svona góða báta,“ segir Baltasar við Variety.

Baltasar segist hafa byrjað að skrifa handritið skömmu upp úr aldamótum, en hafi sett myndina á ís vegna þess að honum tókst ekki að safna saman nógu fé til að gera metnaðarfulla kvikmynd. Í myndinni munu leika evrópskar stjörnur í bland við leikara frá Skandinavíu. Aðalleikarinn verður þó írskur.

Kostnaður við verkefnið mun vera á bilinu 60 til 100 milljónir dala að mati Baltasars, eða um 7 til 16 milljarða króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×