Þá hefur hann fjármagnað framleiðslu á alþjóðlegri sjónvarpsþáttaröð eftir glæpasögum Yrsu Sigurðardóttur um Þóru Guðmundsdóttur lögmann og vonast til að hefja tökur haustið 2015.
Sigurjón hefur um áratuga skeið starfað í Hollywood og unnið með mörgum af fremstu leikurum og leikstjórum samtímans. Jón Óttar Ólafsson skaust fram á ritvöllinn í fyrra með bók sinni Hlustað, sem hefur þegar verið gefin út í Noregi og Frakklandi. Ókyrrð er nýkomin út og þriðja sagan í seríunni er væntanleg að ári.
„Stíll Jóns Óttars er ferskur, frásögnin er hraðari en við eigum almennt að venjast í norrænum glæpa- og spennusögum og því henta bækur hans mjög vel til kvikmyndunar. Ég er ekki hissa á því að honum hafi verið líkt við höfunda á borð við Lee Child og Michael Connelly,“ segir Sigurjón og bætir við að hugsanlegt sé að gerð verði kvikmynd eftir fyrstu bók Jóns Óttars en þær seinni útfærðar fyrir sjónvarp.
Sigurjón hefur einnig tryggt fjármagn til framleiðslu á alþjóðlegri sjónvarpsþáttaröð eftir glæpasögum Yrsu Sigurðardóttur með þátttöku CBC í Kanada og Telemunchen í Þýskalandi og viðræður standa einnig yfir við Breska ríkisútvarpið, BBC, í Skotlandi. Á síðasta ári var tilkynnt um að gerð þáttaraðarinnar væri fyrirhuguð.

Nýjasta kvikmynd Sigurjóns er Z for Zacariah, með Chris Pine í aðalhlutverki, sem tekur þátt í aðalkeppninni á Sundance-kvikmyndahátíðinni nú í janúar. Meðframleiðandi að þeirri mynd, rétt eins og að sjónvarpsþáttaröðinni eftir bókum Yrsu, er íslenska kvikmyndafyrirtækið Zik Zak.