Innlent

Gæti truflað heimsminjaskráningu

Svavar Hávarðsson skrifar
Fréttablaðið/Pjetur
Ólafur Örn Haraldsson þjóðgarðsvörður útilokar ekki að fráveitumál á verndarsvæði Þingvalla geti haft neikvæð áhrif á fyrirhugaða skráningu Þingvallasvæðisins alls á heimsminjaskrá Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO).

Aðeins hluti þjóðgarðsins á Þingvöllum er á heimsminjaskrá í dag, á forsendum sögu og menningar. Stefnt er að því að Þingvallavatn ásamt vatnasviði verði sett á heimsminjaskrá sem einstakar náttúruminjar á heimsvísu í framtíðinni. Skráningin mun byggja á forsendum náttúrufars og er undirbúningur slíkrar skráningar þegar hafinn, til dæmis með undirbúningsvinnu Náttúrufræðistofnunar Íslands við gagnaöflun um náttúrufar svæðisins.

Eins og Fréttablaðið greindi frá í gær uppfylla sárafá af þeim hátt í 700 sumarhúsum á verndarsvæði Þingvallavatns þær kröfur sem þar eru í gildi um fráveitumál, sem er niðurstaða samstarfshóps Heilbrigðisnefndar Suðurlands, sveitarfélaga, Þingvallanefndar og fleiri.

Spurður hvort bágt ástand frárennslismála á verndarsvæðinu geti haft neikvæð áhrif á heimsminjaskráningu svæðisins í heild, segir Ólafur Örn það hugsanlegt.

„Ég get ekki svarað þessari spurningu afdráttarlaust. En auðvitað hljóta menn að spyrja þessara spurninga í samhengi við náttúrufar Þingvallavatns í dag, sem er einstakt. Spyrja hvort Íslendingar, sem óska þess að hafa umsjón staðarins fyrir hönd mannkyns, gæta svæðisins nægilega vel,“ segir Ólafur og hnykkir á því að með skráningunni sé viðurkennt að svæðið sé einstakt á heimsvísu og þurfi að standast kröfur sem fara saman við gildi þess. Það hljóti að ná til mengunar sem hefur áhrif á vatnið hvort sem það er frárennsli frá mannabústöðum eða önnur mengun.

Hann telur að krafan hljóti að vera að þau atriði sem mannshöndin getur haft áhrif á séu löguð. „Það kæmi mér í sjálfu sér ekkert á óvart að sú krafa kæmi fram að þetta yrði skoðað sérstaklega áður en til skráningarinnar kemur,“ segir Ólafur Örn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×