Innlent

Farþegar afbóka í fimmtudagsflug

Höskuldur Kári Schram skrifar
Guðjón Arngrímsson.
Guðjón Arngrímsson. Vísir/Heiða
Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að félagið bindi enn vonir við það að hægt verði að leysa kjaradeiluna áður ótímabundið verkfall hefst. Hann segir farþegar séu byrjaðir að afbóka ferðir vegna málsins.

„Þetta hefur gengið þokkalega miðað við aðstæður. Með því að tilkynna þetta með þeim fyrirvara sem við gerðum að þá tókst að láta langflesta farþega vita og gera ráðstafanir til að hjálpa þeim að bregðast við,“ sagði Guðjón í hádegisfréttum á Bylgjunni.

„Staðan í Leifsstöð í morgun var tiltölulega góð. Vissulega kom fólk sem var í miklum vandræðum. Það er verið að vinna úr því og það er verkefni dagsins.“

Guðjón á ekki von á miklum röskunum á flugi á morgun.

„Ég held ekki. Það má búast við seinkunum í fyrramálið því færa þarf flugvélarnar sem standa í Keflavík núna og gera ráðstafanir. En þegar líður á morgundaginn ætti þetta að komast á rétt ról.“

Takist ekki samningar hjá flugvirkjum hefst ótímabundið verkfall á fimmtudag. Guðjón segir Icelandair vissulega horfa aðeins fram í tímann en aðallega sé einn dagur tekinn fyrir í einu. Hann sé hins vegar ekki bjartsýnn á að viðræðum ljúki fyrir þann tíma.

„Það gefur kannski ekki mikið tilefni til bjartsýni. Það ber mikið í milli. Við tökum einn dag fyrir í einu.“

Hann segir fólk farið að afbóka ferðir á fimmtudag.

„Já, því er ekkert að leyna. Það er mikið álag á þjónustuverinu og margir áhyggjufullir vegna stöðunnar.“


Tengdar fréttir

Vinnustöðvun flugvirkja í dag

Kjarasamningar Icelandair og flugvirkja tókust ekki í gær og mun ótímabundið verkfall hefjast á fimmtudag að óbreyttu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×