Innlent

Ein sigursælasta hjólreiðakona heims á Miðnæturmóti Alvogen

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Hanka Kaupfernagel mætir hingað til lands.
Hanka Kaupfernagel mætir hingað til lands.
Hanka Kaupfernagel, sem er með sigursælari hjólreiðakonum heims, kemur hingað til lands og tekur þátt í Miðnæturtímatökumóti Alvogen sem fer fram á fimmtudagskvöld.

Hún hefur verið í fremstu röð frá árinu 1990 á að baki fjölmarga heims- og evrópumeistaratitla, ásamt því að hljóta silfurverðlaun á Ólympíuleikum. Þá mun Þjóðverjinn Richard Geng einnig keppa á mótinu en hann er fyrrum atvinnumaður í hjólreiðum og mjög sigursæll í íþróttinni. Öflugustu hjólreiðamenn og konur landsins hafa boðað komu sína á mótið sem haldið er í annað sinn.

Alvogen Midnight Time Trial er tileinkað réttindum barna og renna þátttökugjöld óskert til neyðarsöfnunar UNICEF til hjálpar börnum í Suður-Súdan. Rásmark er við Hörpu og þaðan er hjólað eftir Sæbraut að gatnamótum við Laugarnesveg og til baka að endamarki við Hörpu.  Snúið er við á keilum og keppnishringur er um 5,5 km langur.  Áhorfendamet var slegið þann 4. júlí 2013 þegar um 500 manns fylgdust með keppninni. Sæbrautinni verður lokað meðan á keppninni stendur.

Hanka mun m.a. etja kappi við hröðustu hjólreiðakonur landsins, þær Birnu Björnsdóttur sem sigraði tímatökumótið árið 2013, Maríu Ögn Guðmundsdóttur hjólreiðakonu Íslands árið 2013 og Stefanie Gegersen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×