Rodrigo Paiva, fjölmiðlafulltrúi brasilíska landsliðsins á HM í fótbolta í Brasilíu, verður í banni þegar Brasilíumenn mæta Kólumbíu í átta liða úrslitum HM á föstudaginn.
Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, hefur sett Paiva í bann vegna atviks sem varð á milli hans og Sílemannsins Mauricio Pinilla í leik Brasilíu og Síle í sextán liða úrslitunum en leikurinn fór fram í Belo Horizonte á laugardaginn.
Rodrigo Paiva mun örugglega missa af Kólumbíuleiknum og fær jafnvel lengra bann en hann er sakaður um að hafa slegið Pinilla í hálfleik.
„Ég var bara að verja mig þegar hann kom upp að mér. Ég brást við með því að ýta honum," sagði Rodrigo Paiva í viðtali við BBC. FIFA segir að rannsókn málsins sé enn í gangi.
Brasilíumenn komust áfram í átta liða úrslitin eftir 3-2 sigur í vítakeppni og mæta spútnikliði Kólumbíu í átta liða úrslitunum á föstudaginn.

