Innlent

Opna Golfstöðvarmótið fór fram við frábærar aðstæður á Laugardaginn

Aron Valur Þorsteinsson úr GKJ stendur sáttur á fimmta teig á Urriðavelli.
Aron Valur Þorsteinsson úr GKJ stendur sáttur á fimmta teig á Urriðavelli. Vísir
Opna Golfstöðvarmótið var haldið í frábæru golfveðri á Urriðavelli laugardaginn síðasta en mjög góð þátttaka var í mótinu. Verðlaunin drógu eflaust marga að en að þessu sinni voru þau einkar vegleg sem og öll umgjörð mótsins.

Leikið var með Texas scramble fyrirkomulagi en Pétur Pétursson og Guðjón Reyr Þorsteinsson, báðir úr GKj, sigruðu mótið eftir að hafa leikið Urriðavöll á 59 höggum nettó. Virkilega góð frammistaða þeirra félaga en fyrir ómakið fengu þeir glæsilega golfferð til Englands með GB ferðum að launum ásamt áskrift af Golfstöðinni í 3 mánuði.

Í öðru sæti enduðu þeir Óðinn Þór Ríkharðsson og Kristófer Orri Þórðarson úr GKG á 60 höggum nettó en þeir fengu meðal annars báðir 75.000 króna úttekt á J. Lindeberg fatnað hjá fataversluninni Kúltúr Menn.

Þá voru sérstök verðlaun fyrir að fara holu í höggi á 13. holu en þau voru glænýr Toyota Yaris bíll. Þrátt fyrir að holustaðsetningin væri framarlega á flötinni og að lítill vindur truflaði kylfinga tókst engum að ná draumahögginu að þessu sinni og því þarf bíllinn að bíða aðeins lengur eftir nýjum eiganda.

Mótið heppnaðist mjög vel og hinn einstaki Urriðavöllur skartaði sínu fegursta um helgina en hægt er að nálgast öll úrslitin úr mótinu á heimasíðu GO.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×