Innlent

Flugslysið á Vatnsleysuströnd: "Vélin var komin á hvolf og það var komið fullt af fólki í kringum hana“

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
TF-Sýn var við æfingar í grennd slyssins.
TF-Sýn var við æfingar í grennd slyssins. VÍSIR/ÞÞ
„Vélin var komin á hvolf og það var komið fullt af fólki í kringum hana,“ segir Gísli Þór Þórarinsson sem kom að flugvél sem þurfti að nauðlenda á golfvellinum á Vatnsleysuströnd í gær. Kona og maður voru um borð í flugvél sem missti afl í mótor þegar hún var úti yfir sjónum skammt frá Kálfatjörn á Vatnsleysuströnd. Fólkið nauðlenti á golfvelli, en í lendingunni kollsteyptist vélin og endaði á hvolfi. Vélin var illa farin eftir nauðlendinguna en fólkið slapp við alvarleg meiðsl og gat gengið í burtu frá vélinni.

„Hún var töluvert löskuð að framan eftir veltuna en þetta hefur samt örugglega verið nokkuð mjúk lending hjá honum, fagmannlega lent. Hún hefur bara kollsteypst og farið hring yfir sig,“ útskýrir Gísli Þór.

TF-Sýn, þyrla landhelgisgæslunnar var samkvæmt heimildum fréttastofu, við æfingar í grennd við slysstað þegar flugmaður þyrlunnar heyrði neyðarkall flugmanna vélarinnar sem nauðlenti, sem er að gerðinni Diamond D A20 og er kennsluvél frá Flugskóla Keilis.

Gísli Þór segir að bæði fólkið sem var um borð í vélinni og aðrir nærstaddir hafi forðað sér frá vélinni.

„Það ganga allir, bæði flugmenn og nærstaddir frá vélinni. Líklega vegna þess að fólk óttaðist einhverja sprengihættu, eða eitthvað slíkt. Og í því lendir þyrla Landhelgisgæslunnar. Líklega hafa flugmennirnir sent út neyðarkall. Við mættum þarna tveimur lögreglubílum, slökkviliðsbíl og tækjabíl.“

Slysið verður rannsakað af Rannsóknarnefnd samgönguslysa.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×