Innlent

Hjörvar í þrettán manna hóp stórmeistara á Íslandi

Elimar Hauksson skrifar
Hjörvar keppti með enska liðinu Jutes of Kent á Rhodos en flestir í liðinu eru mun eldri en hann.
Hjörvar keppti með enska liðinu Jutes of Kent á Rhodos en flestir í liðinu eru mun eldri en hann. Mynd/Úr Einkasafni
Hjörvar Steinn Grétarsson náði þeim áfanga um helgina að verða stórmeistari í skák aðeins tuttugu ára gamall. Hann er þrettándi íslenski stórmeistarinn.

Hjörvar varð þar með næstyngsti Íslendingurinn til að verða stórmeistari. Helgi Áss Grétarsson varð stórmeistari árið 1994, þá sautján ára gamall.

Hjörvar vann fimm skákir af sjö á Evrópumóti klúbba sem haldið var á grísku eyjunni Rhodos. Árangurinn segir Hjörvar nokkuð langþráðan.

„Ég kláraði Verzlunarskólann í maí og tók mér ársfrí frá námi til að sinna skákinni betur. Ég reyni að æfa í fjóra til fimm tíma á dag.“

Næsta verkefni Hjörvars er Evrópumót landsliða í Póllandi en þangað heldur hann ásamt íslenska landsliðinu í byrjun nóvember. Aðspurður hvort atvinnumennska sé næsta skref svaraði Hjörvar að það væri ekki stefnan í dag.

„Ég stefni á að byrja aftur í námi næsta haust. Ætli ég fari ekki í lögfræði eins og margir stórmeistarar hafa gert,“ sagði Hjörvar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×