Innlent

Þrettán ára piltur með varanlegan augnskaða eftir leysibendi

Hjörtur Hjartarson skrifar
Mjög sterkir leysibendar eru í umferð hér á landi
Mjög sterkir leysibendar eru í umferð hér á landi AFP

Þrettán ára piltur hlaut alvarlegan og varanlegan augnskaða eftir að geisla úr leysibendi var beint að augum hans. Það tekur aðeins sekúndubrot fyrir geislann að valda óafturkræfu tjóni á sjón, segir prófessor í augnlækningum.

Leysibendar eru alla jafnan notaðir við fyrirlestra og er sú tegund að mestu leyti hættulaus sé farið með gát. En til er önnur og mun hættulegri útgáfa af samskonar tæki með styrk sem er hundrað sinnum öflugri. Sá bendir er sumstaðar löglegur en bannaður í flestum löndum, þar á meðal Íslandi. Talið er að pilturinn hafi verið með slíkt tæki þegar óhappið varð. Hann skaddaðist á báðum augum og missti miðjusjón á öðru þeirra.

Einar Stefánsson, prófessor í augnlækningum segir: „Þarna var tæki sem leit út eins og leysirbendill en er 100 milliwött. 100 milliwatta tæki er nægjanlega sterkt til þess að brenna augnbotninn ef því er beint að auganu."

Geislavarnir ríkisins eiga tæki til að mæla styrkleika leysibenda en þó á ekki að vera erfitt fyrir hvern sem er að átta sig á hættulitlum og beinlínis skaðsömum bendum.

Þorgeir Sigurðsson, fagstjóri hjá Geislavörnum Ríkisins segir: „Leysirbendar sem eru löglegir, það stendur á þeim "caution", þeir eru í flokki tvö, sem er í lagi ef þeir eru merktir rétt samkvæmt alþjóðlegum stöðlum. Við reynum að ná þeim úr sölu allsstaðar þar sem við sjáum þá. Við höfum séð þá auglýsta á netinu, í búðum, frétt af þeim í innflutningi. Við höfum stöðvað mjög sterka leysa í innflutningi."

Eins og heyra má geta svona lítil tæki verið stórhættuleg. Ekki þarf að beina geislanum lengi að augum manneskju til að skaði hljótist af.

Einar Stefánsson segir ennfremur: „Þetta gerist á sekúndubroti. Þetta gerist kannski á 0,1 sekúndu og það er svo snöggt að maður nær ekki að loka auganu. Þannig að það er í raun engin leið að verjast svona leysi og það gerir svona sterk leysertæki svo hættuleg.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×