Innlent

Frumraun Darra frumsýnd vestanhafs

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Darri í hlutverki sínu í Dexter ásamt bandarísku leikkonunni Bethany Joy.
Darri í hlutverki sínu í Dexter ásamt bandarísku leikkonunni Bethany Joy. MYND/SHOWTIME
Frumraun Darra Ingólfssonar í bandarísku sjónvarpsþáttunum Dexter leit dagsins ljós þegar þátturinn var frumsýndur vestanhafs í gær.

Í ítarlegu viðtali við sjónvarpsþáttasíðuna Buddy TV í dag talar Darri um reynslu sína af þáttunum. Hann segist vera mjög þakklátur fyrir að fá tækifæri til að vera hluti af Dexter, en búið er að gefa út að þáttaröðin sem hann leikur í, og er nú í sýningu, verði sú síðasta.

„Það er ótrúlegt að verða hluti af einhverju sem er nú þegar orðið svo stór hluti af kvikmynda – og sjónvarpsþáttasögunni. Það var auðvitað svolítið skrítið að koma inn í hóp leikara sem hafa unnið saman svona lengi, og ég viðurkenni að það var erfitt í fyrstu, en ég er virkilega þakklátur fyrir þessa reynslu. Ég fékk að vinna með ótrúlega hæfileikaríku fólki, bæði leikurum og leikstjórum,“ segir Darri meðal annars í viðtalinu.

Þegar Darri er spurður að því hvort hann hafi fylgjst með Dexter áður en hann var ráðinn inn í þættina segir hann svo vera. „Það eru ekki til margir þættir sem ég fylgist með frá byrjun til enda, en ég hef alltaf verið mikill Dexter-aðdáandi og horft á þættina. Bróðir minn er líka mikill aðdáandi, sem og margir vinir mínir.“

Þá segist Darri sérstaklega hafa notið þess að leika á móti Michael C. Hall, en hann leikur Dexter sjálfan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×