Innlent

Blöndubrú sögð hættuleg

Svavar Hávarðsson skrifar
Brúin yfir Blöndu er orðin 50 ára gömul – byggð á árunum 1962 til 1963.
Brúin yfir Blöndu er orðin 50 ára gömul – byggð á árunum 1962 til 1963. mynd/huni.is
Ástand þjóðvegabrúarinnar yfir Blöndu er með öllu óásættanlegt og vegfarendum hættulegt, segja heimamenn á Blönduósi. Þeir þrýsta á aðgerðir og vilja samráð við Vegagerðina um úrbætur.

„Ástand brúarinnar er með öllu óásættanlegt þar sem hún er of mjó fyrir akandi umferð og hættuleg fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Bæjarráð telur að úrbóta sé þörf strax,“ segir í bókun bæjarráðs sem hefur falið bæjarstjóra og tæknideild bæjarins að ræða við Vegagerðina.

Ágúst Þór Bragason, forseti bæjarstjórnar, segir tímabært að ráðast í mikið viðhald á brúnni. En meginvandinn sé að brúin var þrengd til að koma að göngubrautum yfir brúna sem hefur þrengt að öllum sem um brúna fara; akandi, hjólandi eða gangandi.

„Það verður að búa svo um hnútana að þessi leið sé örugg og afkasti því sem hún á að gera,“ segir Ágúst Þór. Hann segir að fjármagn hafi verið eyrnamerkt árið 2008 til að bæta þjóðveginn í gegnum Blönduós en ekkert hafi orðið af neinu. „Við erum því að hamra á því að fara í þessa framkvæmd – að hún verði sett framar í forgangsröðina.“

Gunnar H. Guðmundsson, svæðisstjóri Vegagerðarinnar á Norðurlandi, segir gagnrýni heimamanna réttmæta upp að vissu marki. „Brúin er þröng og vandamál koma ekki síst upp í snjóum. Það eru til áætlanir um að koma gangandi vegfarendum af brúnni og á göngubrú neðar.“

Hér vísar Gunnar til hugmynda um göngubrú yfir Blöndu, um 100 metrum fyrir neðan þjóðvegsbrúna, sem hins vegar er ekki á samgönguáætlun.

„Fáist göngubrú getum við víkkað akbrautina. Annað vandamál er hringtorgið rétt við brúna sem er of lítið og þröngt, sérstaklega fyrir stærri bíla. Við erum búnir að hanna nýtt torg, en það er spurning um hvenær við fáum peninga í það. En þetta hangir saman, brúin og torgið,“ og tekur undir orð heimamanna að það sé óhugnanlegt að vera staddur á brúnni þegar stórir bílar fara yfir hana.

„Ég skil því heimamenn á Blönduósi vel. Þegar búið er að gera frumdrög og kostnaðarmat liggur fyrir þá vilja menn þrýsta á framkvæmdir,“ segir Gunnar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×