Erlent

Haggis enn og aftur í sviðsljósinu í Bandaríkjunum

Enn og aftur er þjóðarréttur Skota, haggis, kominn í sviðsljósið í Bandaríkjunum eins og gerst hefur árlega í töluvert langan tíma en haggis er bannað þar í landi.

Í dag fagna Skotar um allan heim hátíðinni Burns Night en dagurinn er tileinkaður Robert Burns þjóðarskáldi þeirra. Á þessum degi er tilskilið að borða haggis, sem er skosk útgáfa af íslensku lifrarpylsunni. Nema í haggis eru öll innyfli kindarinnar þar með lungun hökkuð saman ásamt haframjöli og kryddi.

Haggis verður borið til borðs í kvöldi með viðhöfn og á meðan er flutt eitt af ljóðum Burns, Adress to Haggis, eða Ávarp til haggis. Haggisinu er síðan skolað niður með glasi af góðu viskýi.

Haggis hefur verið bannað í Bandaríkjunum frá árinu 1971 þar sem bannað er að nota lungu úr dýrum í matargerð þarlendis. Skotar sem búsettir eru í Bandaríkjunum hafa barist ákaft fyrir undanþágu gegn banninu en án árangurs. Þeirra helstu rök eru að Burns Night án haggis sé eins og þakkargjörðardagurinn án kalkúns.

Þeir hafa þó ekki dáið ráðalausir og nú er haggis framleitt, án lungna, víða í Bandaríkjunum sérstaklega fyrir þessa hátíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×