Innlent

Ráðherra útilokar ekki að skjóta svani

Brjánn Jónasson skrifar
Ljóst er að tjón bænda af völdum álfta og gæsa er víða mikið sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra á Alþingi.
Ljóst er að tjón bænda af völdum álfta og gæsa er víða mikið sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra á Alþingi. Fréttablaðið/Pjetur
Mikilvægt er að draga úr tjóni kornbænda af völdum svana og gæsa en engar aðgerðir hafa verið mótaðar enn, sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, á Alþingi í dag.

Í svari ráðherra við fyrirspurn Haralds Benediktssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, sagðist hann mjög meðvitaður um vanda bænda vegna ágangs fugla. Gera þurfi úttekt á vandanum og skoða hvort megi nota fælingaraðgerðir eða mjög takmarkaðar skotveiðar til að verja akra bændanna.

Sigurður Ingi sagði ljóst að tjón bænda sé víða mikið. Hann sagði að lengi hafi verið í skoðun til hvaða aðgerða væri hægt að grípa. Nú sé hafin vinna í ráðuneytinu við að greina umfang og eðli áhrifa af völdum álfta og gæsa. Meta þurfi hvert raunvörulegt tjón bændanna sé, og hafa samráð við hagsmunaaðila til að finna sáttaleið.

Umhverfisstofnun hefur meðal annars það hlutverk að leiðbeina um aðgerðir til að koma í veg fyrir tjón af völdum villtra dýra.

Eins og fram kom í Fréttablaðinu í júlí síðastliðnum vilja bændur sem eiga repjuakra við Hornafjörðinni fá leyfi til að skjóta álftir sem leggjast á akra. Þeir segja ræktuninni sjálfhætt fáist ekki leyfi til að fækka álftunum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.