Lífið

Hjólaði frá Berlín til Parísar í minningu föður síns

Sara McMahon skrifar
Sverrir Rolf Sander lauk hjólreiðaferðalagi sínu við Sigurbogann í París. Hann hafði þá hjólað 1.262 kílómetra frá Berlín.
Sverrir Rolf Sander lauk hjólreiðaferðalagi sínu við Sigurbogann í París. Hann hafði þá hjólað 1.262 kílómetra frá Berlín. Mynd/úr einkasafni
„Í síðasta skipti sem ég talaði við föður minn lofaði ég honum því að þegar hann væri búinn að ná sér af veikindum sínum myndum við hjóla frá Berlín, þar sem ég bjó á þeim tíma, til Kölnar, en hann var þaðan. Þetta ætluðum við að gera sumarið 2013 en faðir minn lést í lok ársins 2011. Ég ákvað samt að láta verða af ferðinni en gera meira úr henni og enda í París,“ segir Sverrir Rolf Sander sálfræðinemi, sem hjólaði frá Berlín til Parísar í minningu föður síns. Hann hjólaði í gegnum fjögur lönd og að ferðinni lokinni hafði hann lagt alls 1.262 kílómetra að baki.

Sverrir hóf ferðalagið þann 25. ágúst og lauk henni í París þann 2. september. Hann reyndi eftir fremsta megni að halda sig á malbikuðum vegum en viðurkenni að það hafi ekki alltaf tekist. „Ég hafði búið til grófa áætlun áður en ég fór af stað en hún gekk ekki alltaf upp þegar á hólminn var kominn vegna minniháttar mistaka, lélegra merkinga og lokaðra vega. Þetta var meiriháttar ævintýri en það komu auðvitað stundir þar sem ég týndist eða ekkert gekk upp og þá langaði mig mest að kasta hjólinu frá mér og fara á næsta hótel. En mest allan tímann leið mér vel og ég naut ferðarinnar,“ útskýrir hann.

Lenti í alvarlegu hjólreiðaslysi

Aðspurður segist Sverrir vera tiltölulega nýbyrjaður að stunda hjólreiðar, og þá vegna flutninga sinna til Berlínar. „Þegar ég var yngri lent ég í alvarlegu hjólreiðaslysi og var það hjálmurinn sem kom í veg fyrir að verr fór. Í kjölfarið hjólaði ég nánast ekki neitt og það var ekki fyrr en ég flutti til Berlínar árið 2010 að ég byrjaði að hjóla aftur. Í Berlín er einkabíllinn munaður en ekki nauðsyn og þar fór áhugi minn vaxandi, enda var hjólið orðið minn aðalferðamáti og að auki hagkvæm og frábær líkamsrækt.“

Einn af bestu vinum Sverris tók á móti honum við lok ferðarinnar, en henni lauk við Sigurbogann í París. Hann hefur notið lífsins í borginni undanfarna daga en kveðst hlakka til heimkomunnar. „Það verður gott að koma heim og fá tækifæri til að deila öllum ævintýrunum með vinum og vandamönnum.“

Hann vonar að hjólreiðatúrinn hafi verið sá fyrsti af mörgum en hyggst hafa dagleiðirnar styttri í næsta sinn. „Ég ætla að reyna að njóta mín meira í næstu ferð og hjóla færri kílómetra á degi hverjum,“ segir hann að lokum.



Hjólaleið Sverris:

Berlín (DE) -> Stendal (DE)

Stendal (DE) -> Lehrte (DE)

Lehrte (DE) -> Bad Oeynhausen(DE)

Bad Oyenhausen (DE) -> Dülmen (DE)

Dülmen (DE) -> Weert (NL)

Weert (NL) -> Brussel (BE)

Brussel (BE) -> Valenciennes (FR)

Valenciennes (FR) -> Omiecourt (FR)

Omiecourt (FR) -> Paris (FR)






Fleiri fréttir

Sjá meira


×