Lífið

Vantar íslenska uppvakninga

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Andrea Brabin, framkvæmdastjóri Eskimo, vill að sem flestir mæti og reyni fyrir sér í leikarabransanum.
Andrea Brabin, framkvæmdastjóri Eskimo, vill að sem flestir mæti og reyni fyrir sér í leikarabransanum.
Kvikmyndin Dead Snow 2, í leikstjórn Norðmannsins Tommy Wirkola, verður tekin upp hér á landi, eins og Vísir hefur áður fjallað um.

Tökur hefjast eftir verslunarmannahelgi en samkvæmt framleiðanda á vegum Saga Film sem fer með stjórn verkefnisins hefur ekki verið ákveðið hvar á landinu tökur fara fram.

Talsvert stór hópur fagfólks er hér á landi vegna kvikmyndarinnar, en aðalleikarar eru bæði frá Noregi og Bandaríkjunum.

Eskimo Casting sér um leikaraval á Íslandi, og fyrirtækið leitar nú að fólki sem hefur áhuga á því að leika í myndinni.

Þá vantar áhættuleikara og leikara sem hafa reynslu af bardagaíþróttum, ásamt aukaleikurum á öllum aldri til þess að leika uppvakninga.

Kvikmyndin er hrollvekja með gamansömu ívafi, eins og fyrsta Dead Snow-myndin.

Andrea Brabin, framkvæmdastjóri Eskimo-Casting, hvetur Íslendinga til að koma í prufur. Prufurnar fara fram í dag og á morgun í húsnæði Eskimo.

„Dead Snow 1 sló í gegn sem költ-mynd, en Wirkola leikstýrði henni og skrifaði handritið. Það sama er upp á teningnum með framhald myndarinnar. Þetta verður hörkuskemmtilegt og ég vona að sem flestir komi í prufur til okkar,“ segir Andrea.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×