Innlent

Vinirnir þorðu ekki upp í Breiðholt

Ingvar segir að þótt margir krakkar úr hverfinu hafi farið illa hafi langflestir náð góðum árangri í lífinu þótt margir þeirra hafi verið að mestu leyti sjálfala. „Þetta er gott hverfi, en það var meira af krökkum sem áttu við vandamál að stríða og fjölskylduaðstæður voru erfiðar. Það er bara þannig,“ segir hann.
Ingvar segir að þótt margir krakkar úr hverfinu hafi farið illa hafi langflestir náð góðum árangri í lífinu þótt margir þeirra hafi verið að mestu leyti sjálfala. „Þetta er gott hverfi, en það var meira af krökkum sem áttu við vandamál að stríða og fjölskylduaðstæður voru erfiðar. Það er bara þannig,“ segir hann. Fréttablaðið/GVA

Ingvar Sverrisson er einn þeirra fjölmörgu Íslendinga sem ólust upp í Breiðholtinu. Hann minnist hverfisins með hlýju og segist hvergi annars staðar hafa viljað eyða æsku sinni. Þegar hann óx úr grasi lá leið hans meðal annars í borgarpólitíkina þar sem hann kynntist ástandinu í hverfinu frá fyrstu hendi, frá faglegu sjónarhorni.

Skýrslan var „reality check“

Árið 1994 kom út skýrsla um Breiðholtið sem einungis var birt starfsmönnum Reykjavíkurborgar á þeim tíma. Í skýrslunni kom skýrt fram að það væri að stefna í vanda í hverfinu, þar sem önnur og þriðja kynslóð af íbúum sem hefðu lifað á bótum frá ríkinu væri að koma upp. Ingvar var þá á sínum fyrstu starfsárum í borgarbatteríinu.

„Ég man vel eftir þessari skýrslu vegna þess að hún var „reality check“ fyrir mig. Þar sagði að við værum að fara að lenda í því sama og aðrar þjóðir að börn alast upp í þessu kerfi við það að það sé bara norm að vera á bótum og það þyrfti að gerast eitthvað í málunum ef við ætluðum að snúa þeirri þróun við,“ segir hann. „Auðvitað var reynt að bregðast við þessu en ég held samt að þetta hafi ræst að einhverju leyti. Þetta var ákveðið vandamál og er enn þann dag í dag.“

Þorðu ekki í Breiðholtið

Ingvar ólst upp í Fellunum, Vesturberginu og Bökkunum. Yngri bræður hans, Sverrir Þór og Friðþjófur Ingi, fóru í Breiðholtsskóla en Ingvar hélt áfram í Fellaskóla þegar fjölskyldan fluttist í Bakkana. „Það var minn skóli. Þetta var svo flottur hópur, æðislegir krakkar, en vandamálin voru auðvitað til staðar.“ Eftir Fellaskóla lá leið Ingvars í MR. Hann lauk þó stúdentsprófi í Breiðholtinu og færði sig á ný úr miðborginni eftir þriggja ára skólagöngu.

„Ég uppgötvaði ekki hvernig ímynd Breiðholts var út á við fyrr en ég fór í MR. Ég var með krökkum úr Vesturbænum og Seltjarnarnesinu í bekk og þau höfðu bara fæst komið upp í Breiðholt vegna þess að þau þorðu ekki. Það sem var heimurinn fyrir mér var staður fyrir þeim þar sem hrækt var á fólk,“ segir hann. Ingvar segir þó að ekki hafi verið um fordóma að ræða hjá bekkjafélögunum í MR.

„Þetta var meira svona óttablandin virðing. Þetta voru allt einstaklega góðir krakkar, enda ákvað ég í fyrsta partíinu að safna þeim saman á Hlemmi þar sem ég fór með þau í Tólfuna og í „sightseeing“ í Breiðholtið. Það var mikið fjör.“ Ímynd hverfisins ekki góð En það eru ekki bara menntaskólakrakkar úr Vesturbænum og Seltjarnarnesi sem eru tortryggnir gagnvart Breiðholti. Íbúar hafa löngum haft áhyggjur af ímynd hverfisins út á við, en eins og flestir vita eru fordómar oftast sprottnir upp úr fáfræði og vanþekkingu.

Hvernig upplifir Ingvar ímynd síns gamla hverfis? „Ég held að hún sé ekkert sérstaklega góð. Til að segja það hreint út held ég að það helgist meðal annars af því að hér búi svo margir úr minnihlutahópum. En fordómarnir voru líka til staðar áður en þeir komu, ég man til dæmis ekki eftir einum einasta útlendingi sem var með mér í skólanum. Á þeim árum stöfuðu fordómarnir af stéttaskiptingu, ekki hlutfalli innflytjenda. Vandamálin eru auðvitað fyrst og fremst þau að það var verið að setja alla á sama stað.“

Margir fallið fyrir eigin hendi

Ingvar undirstrikar að fjölmiðlar hafi einnig átt stóran þátt í „gettóvæðingu“ Breiðholtsins. Með langsóttum tengingum við hverfið, undirstrikunum á þjóðerni fólks í fréttum og ítrekun á nafni hverfisins þegar eitthvað neikvætt átti sér stað. Hann er þó meðvitaður um að ekki sé hægt að líta framhjá því að félagslegu vandamálin hafi verið meiri þar en í öðrum hverfum borgarinnar.

„Pabbi sýndi mér gamla bekkjarmynd af sér úr 12 ára bekk Breiðagerðisskóla um daginn og benti á að allir á myndinni væru enn á lífi. Þá hugsaði ég með mér að það væru líklega svona fimmtán manns sem ég eyddi dögunum mínum með hérna, á fylleríum, í Fellahelli eða eitthvað hér í kring, sem eru dánir. Og margir fyrir eigin hendi. Margir krakkar héðan hafa farið illa, en langflestir hafa náð góðum árangri í lífinu þótt þeir hafi verið að miklu leyti sjálfala,“ segir hann. „Þetta er gott hverfi, en það var meira af krökkum sem áttu við vandamál að stríða og fjölskylduaðstæður voru erfiðar. Það er bara þannig.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×