Innlent

Ábyrgð foreldra mikil á netinu

María Lilja Þrastardóttir skrifar

Mikilvægt er að foreldrar fylgist vel með netnotkun barna sinna segir Þórir Ingvarsson rannsóknarlögreglumaður, en hann sérhæfir sig í netöryggi barna.

Fréttablaðið sagði frá því í gær að samkvæmt heimildum væru dæmi fyrir því að börn undir lögaldri notuðu klámmyndir sem þau finna á netinu sem gjaldmiðil á skráardeilisíður. Þórir segir málið erfitt viðfangs en vill brýna fyrir foreldrum að kenna börnum sínum ábyrgð og öryggi í netsamskiptum.

„Almennt séð er mikilvægt að foreldrar fylgist vel með netnotkun barnanna sinna. Einnig er mikilvægt að átta sig á því að netsíur eru ekki endanleg lausn þegar kemur að öryggi barna á netinu,“ segir Þórir.

Samkvæmt 210. grein almennra hegningarlaga er öll dreifing á klámi bönnuð og lögin því brotin í hvert skipti sem slík skráarskipti eiga sér stað. Ekki hefur verið farið í sértækar aðgerðir hjá lögreglu til þess að stöðva slíka dreifingu og segir Þórir málið mjög flókið.

„Dreifing á klámi er ólögleg og refsiverð en hvaða aðgerðir er hægt að fara í gegn þessari þróun er erfitt segja,“ segir Þórir.


Tengdar fréttir

Íslenskar torrent-síður hýsa mjög gróft klám

Gróft klámefni er í dreifingu á milli Íslendinga á íslenskum vefsvæðum á borð við deildu.net. Fáliðuð kynferðisbrotadeild lögreglu getur lítið aðhafst þótt dreifingin sé skýrt brot á lögum. Ekkert er hægt að gera nema formleg kæra berist.

Börn nota klám sem gjaldmiðil á netinu

Vefsíðan deildu.net er stærsta torrent-síða á Íslandi með yfir 50 þúsund notendur. Til þess að geta náð í efni á síðunni þarf að hala upp vinsælu efni á móti og eru dæmi um að notendur á barnsaldri hali upp klámi, þar sem slíkt efni er eftirsótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×