Innlent

Ólíklegt að fólk láti börnin bíða

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Um næstu áramót verða tannlækningar gjaldfrjálsar fyrir þriggja ára börn og börn frá 10 til 17 ára. Nordicphotos/getty images
Um næstu áramót verða tannlækningar gjaldfrjálsar fyrir þriggja ára börn og börn frá 10 til 17 ára. Nordicphotos/getty images vísir/getty
Á meðan verið er að innleiða kerfi þar sem tannlækningar verða gjaldfrjálsar fyrir börn verður nokkur bið á því að kerfið nái til allra aldurshópa. Þannig líða þrjú ár þar til kerfið nær til barns sem er fjögurra ára í dag.

Í vor nær kerfið til barna á aldrinum 15 til 17 ára. Í haust bætast við þriggja ára og 12 til 14 ára og svo verður bætt við hópum fram í ársbyrjun 2018. Sigurður Benediktsson, tannlæknir og fyrrverandi formaður Tannlæknafélags Íslands, telur þó ekki að við þetta skapist sérstök vandamál. „Ekki má gleymast að ástandið er óbreytt fyrir börn sem ekki detta alveg strax inn í kerfið,“ segir hann og telur ólíklegt að foreldrar bíði með heimsóknir til tannlæknis þar til börn ná „réttum“ aldri. Í hönnun á nýja kerfinu í fyrrasumar hafi líka verið gert ráð fyrir að búin yrðu til sérstök úrræði fyrir börn sem illa stæðu félagslega.

„Síðan gætu stjórnmálamenn líka ákveðið í framhaldinu að innleiða kerfið hraðar,“ bendir Sigurður á og telur ljóst að breytingarnar séu til mikilla bóta. Fyrirséð sé að fólk komi í framhaldinu mun frekar með börn til tannlæknis. „Og svo er sérstakt fagnaðarefni að samið er til langs tíma. Þetta er langhlaup.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


×