Innlent

Þeir efnilegustu í heimi tefla

Svavar Hávarðsson skrifar
Áhorfendur eru velkomnir og aðgangur ókeypis. Skákskýringar verða í boði allt mótið.  fréttablaðið/valli
Áhorfendur eru velkomnir og aðgangur ókeypis. Skákskýringar verða í boði allt mótið. fréttablaðið/valli

N1-Reykjavíkurskákmótið 2013 hófst í Hörpu síðdegis í gær og er haldið í 28. skipti. Mótið er hið fjölmennasta frá upphafi. Keppendur eru 228, þar af 150 erlendir gestir frá 38 þjóðum.

Aldrei hafa fleiri stórmeistarar teflt á alþjóðlegu skákmóti á Íslandi eða 35 alls, en þeirra á meðal er Friðrik Ólafsson, fyrsti stórmeistari Íslendinga sem er 78 ára að aldri. Tveir heimsmeistarar keppa á mótinu og þrír stigahæstu skákmenn heims 20 ára og yngri. Kínverska stúlkan Guo Qi er heimsmeistari stúlkna og Alexander Ipatov er heimsmeistari pilta, og eru meðal margra kornungra snillinga sem setja munu mikinn svip á mótið. Stigahæstur allra er Anish Giri, 19 ára gamall, en meðal annarra meistara eru Wesley So frá Filippseyjum og kínversku ofurstórmeistararnir Bu Xiangzhi, Yu Yangyi og Ding Liren.

Fjölmörg börn og ungmenni tefla á stórmótinu í Hörpu. Margra augu munu beinast að hinum 13 ára Wei Yi, sem er stigahæstur allra í heiminum 14 ára og yngri og er þegar kominn með tvo stórmeistaraáfanga af þremur. Yngsti keppandi mótsins er Óskar Víkingur Davíðsson, 7 ára, sem jafnframt er yngsti keppandinn í 49 ára sögu mótsins.

Alls eru tefldar tíu umferðir og stendur mótið til 27. febrúar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×