Erlent

Boða fleiri tilraunir með kjarnavopn

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Glyn Davies, fulltrúi stefnu Bandaríkjanna gagnvart Norður-Kóreu, ræðir við fréttamenn í Seúl, höfuðborg Suður-Kóreu. nordicphotos/AFP
Glyn Davies, fulltrúi stefnu Bandaríkjanna gagnvart Norður-Kóreu, ræðir við fréttamenn í Seúl, höfuðborg Suður-Kóreu. nordicphotos/AFP
Norður-Kóreumenn boða fleiri tilraunir með kjarnorkusprengingar og flugskeyti, þrátt fyrir alþjóðlegar refsiaðgerðir sem bitna harkalega á bágum efnahag þjóðarinnar.

„Til að jafna ágreining við Bandaríkin þarf að beita valdi, ekki orðum," segir í yfirlýsingu frá landvarnanefnd Norður-Kóreu. Kim Jong-un, leiðtogi landsins, er formaður þeirrar nefndar.

Bandaríkin hafa brugðist harkalega við þessum yfirlýsingum og vara Norður-Kóreu við frekari kjarnorkutilraunum.

Norður-Kórea telur sig hafa fullan rétt til að koma sér upp kjarnorkuvopnum, einkum í þeim tilgangi að verjast Bandaríkjunum, höfuðandstæðingi landsins í Kóreustríðinu.

Stríðið stóð í þrjú ár og lauk með vopnahléi árið 1953, en friðarsamningur hefur aldrei verið undirritaður þannig að formlega stendur það enn yfir. Norður-Kórea gerði kjarnorkutilraun árið 2006 og aftur árið 2009, í bæði skiptin fáum vikum eftir að Sameinuðu þjóðirnar samþykktu refsiaðgerðir gegn landinu vegna flugskeytatilrauna skömmu áður. Sama atburðarás hófst seint á síðasta ári þegar Norður-Kórea gerði tilraun með flugskeyti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×