Innlent

„Þetta var bara eins og í bíómynd“

Fanney Birna Jónsdóttir og Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
"Við erum ekki vön svona á Íslandi. Menn með byssur að skjóta hvor á annan,“ segir Kristbjörg.
"Við erum ekki vön svona á Íslandi. Menn með byssur að skjóta hvor á annan,“ segir Kristbjörg. Mynd/Stefán
„Maður er svo vanur að eitthvað sé í gangi úti í garði að við héldum bara áfram að sofa. Svo vöknuðum við um þrjú leytið við svakaleg læti og sáum þá lögreglubílana og það var verið að skjóta og brjáluð læti,“ segir Kristbjörg Jónsdóttir, dagmamma og íbúi í Hraunbæ 22.

Hún fylgdist með atburðum gærdagsins þegar Sævarr Rafn Jónasson var skotinn niður af sérsveitarmönnum eftir að hafa látið illum látum í Hraunbæ aðfararnótt mánudagsins.

„Þetta var ekkert smá sko, lögreglan þurfti skýla sér bak við bílana hérna úti á planinu og við heyrðum þegar lögreglumaðurinn datt niður tröppurnar, svefnherbergið er alveg við næsta stigagang og hann slóst upp við handriðið og rúllaði niður tröppurnar,“ segir Kristbjörg.

Hún fylgdist með sérsveitinni alvopnaðri út úm eldhúsgluggann hjá sér og segir að hún hafi upplifað sig eins og í bíómynd - nema þetta var ískaldur raunveruleikinn fyrir utan gluggann hjá henni.

„Okkur grunaði strax að þetta væri hann. Við höfum séð hann áður vera með læti. Aumingjans maðurinn að fá ekki hjálp í stað þess að vera settur í íbúðahverfi. Börnin okkar eru mikið að spá í þessu núna. Hvort það sé svona hættulegt að vera á Íslandi, hvort þeir séu fleiri og hvort þau þurfa að vera hrædd,“ segir Kristbjörg áhyggjufull.

Hún segir engan hafa talað við þau meðan þetta var í gangi né hafi þeim verið boðin áfallahjálp.

„Ég held það væri fínt ef einhver talaði við krakkana um þetta, en þetta er kannski svo einstakt að það kann enginn að taka á þessu. Við erum ekki vön svona á Íslandi. Menn með byssur að skjóta hvor á annan,“ segir Kristbjörg að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×