Innlent

Vill að stúlkurnar taki út refsingu á Íslandi

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
„Stúlkurnar gerðu rangt og þær eiga að taka út sína refsingu.“ Þetta segir móðir stúlku sem var í dag ásamt vinkonu sinni dæmd í sjö ára fangelsi fyrir fíkniefnasmygl í Tékklandi.

Hún segir dóttur sína gera sér grein fyrir mistökum sínum en að hún eigi að taka út refsingu á Íslandi.

Stúlkurnar, sem báðar eru nítján ára gamlar, voru handteknar á Vaclav Havel alþjóða flugvellinum í Prag í fyrra. Við dómsuppkvaðningu í dag voru stúlkurnar dæmdar í sjö og sjö og hálfs árs fangelsi.

Málið hefur velkst í tékkneska dómskerfinu í rúmt ár en stúlkurnar voru handteknar 9. nóvember á síðasta ári. Málið tekur til smygls á um þremur kílóum af kókaíni til landsins, sem eru um sextíu þúsund söluskammtar samkvæmt tékkneskum dómstólum.

Stúlkurnar eru góðir vinir og lögðu upp ferð til Brasilíu í ágúst á síðasta ári. Þaðan flugu stúlkurnar til Munchen þar sem tollverðir tóku eftir einhverju grunsamlegu í fari þeirra.Tollverðirnir leyfðu stúlkunum að halda áfram til Prag þar sem vær voru á endanum handteknar. Grunur leikur á að áfangastaður þeirra hafi verið Kaupmannahöfn.

Stúlkurnar hafa sætt gæsluvarðhaldi í Pankrats fangelsinu síðan þá en utanríkisþjónustan hefur verið þeim til halds og trausts. Í gær var stúlkunum birt ákæra og fóru vitnaleiðslur fram í kjölfarið. Viðurlög við smygli eru afar hörð í Tékklandi.

Enginn bjóst þó við svo þungum dómi í dag.

„Sálfræðingurinn sagði við réttarhöldin að það væri ekki gott fyrir þær að vera svo lengi í fangelsi, þetta væru bara börn,“ segir Þórir Gunnarsson, ræðismaður. „Dómarinn hlustaði ekki á þetta. Svo kemur dómurinn í dag og þá hafði saksóknari farið fram á minni refsingu en dómarinn fullgilti hana.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×