Innlent

Ríkissjóður í ruslflokk ef Seðlabankinn fjármagnar skuldaleiðréttingu

Höskuldur Kári Schram skrifar
Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, og Már Guðmundsson, Seðlabankastjóri.
Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, og Már Guðmundsson, Seðlabankastjóri.
Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, segir að lánshæfiseinkunn ríkissjóðs fari í ruslflokk ef Seðlabankanum verði gert með lagabreytingum að fjármagna skuldaleiðréttingarsjóð. Þetta kom fram á opnum fundi í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis í morgun.

Már Guðmundsson, Seðlabankastjóri, Gylfi Zoëga prófessor í hagfræði og Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, mættu fyrir hönd peningastefnunefndar á fund efnhags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði um boðaðar skuldaleiðréttingar og hvaða áhrif leiðréttingarsjóður myndi hafa ef hann væri fjármagnaður með vaxtalausu skuldabréfi Seðlabankans.

Már Guðmundsson, Seðlabankastjóri, sagðist ekki geta sagt mikið enda hafi hann ekki séð hvernig ríkisstjórnin hyggst framkvæma boðaðar skuldaaðgerðir. Hins væri það ljóst að leiðréttingarsjóður væri ígildi peningaprentunar. „Og það þarf ekki að stafa ofaní ykkur hvaða áhrif það hefur,“ sagði Már.

Þórarinn tók í sama streng. „Það að fjármagna [leiðréttingarsjóð] í gegnum efnahagsreikning Seðlabankans yrði í fyrsta lagi ólöglegt miðað við núverandi lög, þ.e. það er Seðlabankans og peningastefnunefndar að sýsla með stærð efnahagsreiknings Seðlabankans ekki stjórnvalda. Það er auðvitað hægt að breyta þeim lögum en ég held að það yrði öruggasta leiðin til að senda lánshæfiseinkunn ríkissjóðs beint niður í ruslflokk. En við erum ekki búnir að sjá útfærsluna og verðum bara að bíða og sjá,“ sagði Þórarinn.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×