Innlent

Formaður VR: "Ábyrgðin liggur hjá Bauhaus“

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, telur að Bauhaus beri ábyrgð á því að hafa ofgreitt starfsmönnum sínum.
Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, telur að Bauhaus beri ábyrgð á því að hafa ofgreitt starfsmönnum sínum. Mynd/GVA
„Þar sem þetta var ekki leiðrétt strax þá er ábyrgðin hjá Bauhaus og geta þar með ekki krafið starfsfólk ári síðar um ofgreidd laun,“ segir Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR.

Bauhaus hefur á síðustu vikum sent fjölmörgum núverandi og fyrrverandi starfsmönnum sínum kröfu frá fyrirtækinu um endurgreiðslu á ofgreiddum launum. Um er að ræða launagreiðslu frá því í apríl, maí, júní og júlí árið 2012. VR sendi frá sér tilkynningu um málið í gær eftir að Bauhaus neitaði að afhenda lista yfir starfsmenn fyrirtækisins svo að VR gæti haft samband við sína félagsmenn sem starfa hjá fyrirtækinu.

„Bauhaus vildi ekki vinna þetta með okkur þannig að við sáum okkur knúin til að þess að senda frá okkur fréttatilkynningu. Í gær höfðu fimm manns strax samband og 25 hafa bæst við í dag,“ sagði Ólafía í viðtali við Reykjavík síðdegis á Bylgjunni.

Hún segir að VR leitist eftir því að eiga uppbyggileg samskipti við fyrirtæki á vinnumarkaði með hagsmunI starfsmanna að leiðarljósi. Næstu skref í málinu séu að fara yfir útreikninga hjá umræddum starfsmönnum.

„Við vildum hvetja starfsmennina til að leita réttar síns til okkar - við erum stéttarfélag og berjumst fyrir okkar félagsmenn,“ segir Ólafía. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×