Innlent

Skelfileg heimkoma eftir Þjóðhátíð

Boði Logason skrifar
Atli Már Gylfason starfar sem útvarpsmaður á K 100,5 og einnig sem plötusnúður. Hér er hann inni í eldhúsinu eftir innbrotið.
Atli Már Gylfason starfar sem útvarpsmaður á K 100,5 og einnig sem plötusnúður. Hér er hann inni í eldhúsinu eftir innbrotið. Mynd/Eyþór
„Þetta er ömurlegt, alveg hreint ömurlegt. Þetta er með því verra sem maður getur lent í," segir útvarpsmaðurinn og plötusnúðurinn Atli Már Gylfason.

Þegar Atli Már snéri til síns heima í Reykjanesbæ, eftir að hafa skemmt sér á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum um helgina, var búið að tæma íbúðina hans nánast og leggja hana í rúst.

„Það var búið að sparka upp hurðinni og brjóta dyrakarminn. Það var búið að hreinsa allt, allt frá sængunum mínum yfir í ryksuguna. Það var nánast allt tekið, flakkarinn, tölvan, tvö sjónvörp, íþróttaskór, íþróttafatnaður og þannig mætti lengi halda áfram. Nánast eina sem var ekki tekið var örbylgjuofninn minn," segir Atli Már í samtali við Vísi nú í kvöld.

„Það eru einhverjir menn þarna úti sem eru með ljósmyndir frá fæðingu barnanna minna. Menn hafa þurft að vera á jeppa eða sendibifreið til þess að flytja þetta allt út úr íbúðinni," segir hann.

Atli Már segist enn vera að átta sig á þessari skelfilegu lífsreynslu og tilfinningin sé alls ekki góð. „Ég gisti hjá ættingjum í nótt því það er ekkert hægt að vera hérna. Það voru engar sængur og íbúðin bara í rúst."

Atli Már inni í svefnherginu sínu.Mynd/eyþór
Hann segir það vera lán í óláni að plötusnúðsgræjurnar hans hafi ekki verið á heimilinu. „Það er einhver þarna uppi sem er vel við plötusnúða því hljóðborðið mitt og allar græjurnar voru í læstri geymslu í Hafnarfirði fyrir algjöra tilviljun," segir hann.

Atli Már segist ekki fá tjónið bætt enda sé hann ekki tryggður. „Ég, eins og margir aðrir, kom illa út úr þessu hruni og þá þurfti maður bara að velja og hafna. Ég er að verða þrítugur og hef aldrei lent í neinu svona áður, og óraði ekki fyrir því að lenda í einhverju svona. Ég hefði aldrei búist við því."

Lögreglan í Reykjanesbæ vinnur nú að rannsókn málsins, en Atli Má biður þó fólk um að hafa augun opin.

„Ég hef fengið gríðarlegan stuðning á Facebook og hafa yfir 2000 manns deilt statusnum mínum, og mikið af því fólki þekki ég ekki neitt. Ég þakka kærlega fyrir það. Núna á næstu dögum verður þessu komið í verð á internetinu og ég vil biðja fólk um að hafa augun opin, til dæmis á vefnum bland.is," segir hann.

Atli Már hefur boðið hverjum þeim sem gefur honum upplýsingar um það hverjir hafi verið þarna að verki 50 þúsund krónur - og er fullum trúnaði heitið.

Facebook-síða Atla Más.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×