Innlent

Sjálfstæðismenn notfærðu sér veikindi Ólafs F.

Kristján Hjálmarsson skrifar
"Ég fékk mörg símtöl frá vinum mínum sem horfðu á beina útsendingu frá Kjarvalsstöðum og sáu skelfingarsvipinn á mér," segir Þorbjörg Helga.
"Ég fékk mörg símtöl frá vinum mínum sem horfðu á beina útsendingu frá Kjarvalsstöðum og sáu skelfingarsvipinn á mér," segir Þorbjörg Helga.
"Ólafur F. var veikur maður og það vissu allir. Allir borgarfulltrúar misnotuðu aðstæður hans en við í Sjálfstæðisflokknum gengum skrefinu lengra en hinir með því að bjóða honum borgarstjórastólinn."

Þetta segir Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir borgarfulltrúi í viðtali í nýjasta tölublaði af Nýju lífi sem kom út í dag.

"Ég er enn miður mín og skammast mín fyrir að hafa tekið þátt í að gera Ólaf F. Magnússon að borgarstjóra í Reykjavík. Þegar það gerðist vorum við borgarfulltrúarnir sárir eftir REI-málið. Í því máli tókum við sannfæringuna fram fyrir liðsheild og við töldum okkur vera að vinna þjóðþrifamál, með því að stöðva yfirvald sem ætlaði að keyra málin í gegn. Þess vegna þótt okkur gríðarlega ósanngjart að missa meirihlutann í kjölfarið."

Misnotkun á valdi

Í viðtalinu fer Þorbjörg Helga meðal annars yfir borgarstjórnarsamstarf Sjálfstæðismanna við Ólaf F. sem hófst í janúar 2008, rétt eftir REI-málið svokallaða. Samstarfið var kynnt á Kjarvalsstöðum. Geðheilsa Ólafs F. hafði þá verið til umræðu í fjölmiðlum og vakti það athygli að hann hafði verið krafinn um læknisvottorð við endurkomuna í stjórnmálin.

Þorbjörg Helga lýsir því hvernig henni leið þann dag. "Þetta var alls ekki góður dagur. Vilhjálmur og Ólafur unnu ágætlega saman að einhverju leyti en þetta var alls ekki gott. Þetta var aldrei gott. Ég man mjög skýrt eftir því þegar Ólafur hafði verið borgarstjóri í nokkra mánuði og einn úr okkar hópi með þekkingu á geðheilbrigðismálum gekk inn á fund til okkar borgarfulltrúanna og sagði okkur fullkomlega meðvirk."

Þóra Tómasdóttir, ritstjóri Nýs lífs, spyr þá hvort það hafi verið valdagræðgi að gera Ólaf að borgarstjóra. "Allavega misnotkun á valdi að mínu mati," segir Þorbjörg Helga.

Þóra spyr þá hvort Sjálfstæðisflokkurinn hafi fórnað hagsmunum borgarbúa með því að gera mann sem þeir treystu ekki að borgarstjóra svo þeir gætu sjálfir komist nær völdum. "Við gátum ekki gert okkur fulla grein fyrir stöðunni strax en um leið og við gerðum það, áttum við að ljúka þessu samstarfi. Ekki síst Ólafs vegna," segir Þorbjörg Helga.

Slettist upp á vinskapinn

Í viðtalinu við Nýtt líf lýsir Þorbjörg Helga því einnig hvernig slitnaði upp úr áralöngu vinasambandi hennar og Gísla Marteins Baldurssonar þegar hún ákvað að bjóða sig fram í annað sætið á lista Sjálfstæðisflokksins eins og fjórir aðrir, þar á meðal Gísli Marteinn.

"Hann vissi að ég væri að hugsa um að bjóða mig fram í annað sætið, en þegar ég tilkynnti honum ákvörðun mína varð hann mjög ósáttur," segir Þorbjörg Helga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×