Innlent

"Ummæli imamsins byggð á mannfyrirlitningu"

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Múslimar á Íslandi eru komnir í hár saman vegna ummæla imamsins hjá Menningasetri múslima.
Múslimar á Íslandi eru komnir í hár saman vegna ummæla imamsins hjá Menningasetri múslima.
Varaformaður Félags múslima á Íslandi fordæmir ummæli Ahmad Seddeq, imam í Menningarsetri múslima, sem hann lét falla í Speglinum í Ríkisútvarpinu í gær. Þar sagði Seddeq að samkynhneigð ýti undir rán á börnum.

Ahmad Seddeq er imam eða trúarleiðtogi Menningarseturs múslima. Samtökin eru með mosku í Ýmishúsinu og þykja íhaldssöm, það er, fylgja orðum kóransins, höfuðriti múslima, af mikilli alvöru.

Seddeq fór mikinn í útvarpsviðtali í Speglinum á RÚV í gær. Þar sagði hann að samkynhneigð ýtti undir rán á börnum.

Í yfirlýsingu sem Sverrir Agnarsson, formaður Félags múslima á Íslandi sendi frá sér, er lýst yfir vanþóknun á ásökunum imamsins í garð samkynhneigðra og er þar tekið fram að þær tengist Íslam ekki á nokkurn hátt.

Það sé skýrt markmið hjá félaginu að koma í veg fyrir öfga, ofstæki og yfirgang í nafni trúarbragða. Það hafi verið á þeim forsendum sem Félag múslima á Íslandi ákvað að vísa núverandi forstöðumönnum Menningarseturs múslima úr félaginu á sínum tíma.

Salmann Tamimi, varaformaður Félags múslima á Íslandi, fordæmir ummæli imamsins og fullyrðir að yfirlýsingar hans séu ekki byggðar á Íslam enda sé hvergi fjallað um slíkt í Kóraninum. Þá segir Salmann að slíkur hatursáróður sé aðeins til þess fallinn að auka sundrung í samfélaginu.

Enn fremur biðst Salmann afsökunar á ummælum imamsins, þau séu byggð á mannfyrirlitningu og beri fyrst og fremst vitni persónu prestsins.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.