Innlent

Dæmdir í samtals 17 ára fangelsi

Valur Grettisson skrifar

Fjórir karlmenn voru dæmdir samtals í tæplega sautján ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun fyrir stórfelldan innflutning á amfetamíni. Mennirnir upplýstu í réttarhöldunum um meintan höfuðpaur í málinu, sem reyndist nýlátinn.

Alls voru sjö menn ákærðir í málinu sem er oft kallað stóra amfetamínmálið. Mennirnir voru ákærðir fyrir að flytja til landsins 19 kíló af amfetamín og 1,7 lítra af amfetamínbasa frá Danmörku. Mennirnir sendu efnin til landsins með pósti en lögreglan uppgötvaði glæpinn áður. Var þá fylgst með þeim og að lokum voru fleiri handteknir í málinu.

Þrír menn voru ákærðir fyrir að skipuleggja innflutninginn. Af þeim fékk Símon Páll Jónsson þyngsta dóminn en hann var dæmdur í sex ára fangelsi. Bræðurnir Jón Baldur og Jónas Fannar Valdimarssynir voru dæmdir í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir brot sín.

Í réttarhöldunum upplýstu bræðurnir um nafn meints höfuðpaurs í málinu, en sá var þá nýlátinn. Bræðurnir sögðu fyrir rétti að þeir hefðu ekki þorað að nafngreina hann af ótta um öryggi fjölskyldna sinna.

Einn maður var sýknaður, en sá ók öðrum að sækja fíkniefnin til tveggja pilta sem voru látnir sækja efnin á pósthúsið.

Annar pilturinn var dæmdur í skilorðsbundið fangelsi, hinn fékk 12 mánaða fangelsi skilorðsbundið í 9 mánuði. Maðurinn sem sótti efnin, Dainius Kvedaras, var dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×