Innlent

Hefur trú á því að íslensk yfirvöld beiti sér í málinu

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Hart var tekið á mótmælendum við þinghúsið í Moskvu. Þeir voru grýttir og barðir í götuna.
Hart var tekið á mótmælendum við þinghúsið í Moskvu. Þeir voru grýttir og barðir í götuna. samsett mynd

„Yfirlýsing frá samtökunum er í bígerð,“ segir Sigurður Júlíus Guðmundsson, varaformaður Samtakanna 78 við fréttastofu Vísis, en í gær samþykkti neðri deild rússneska þingsins lög sem gera það refsivert að halda því fram að samkynhneigð sé jafn eðlileg og gagnkynhneigð.

„Samtökin 78 eru mjög vonsvikin að sjá þróun mála í Rússlandi og það er hræðilegt að hugsa til þess að íslensk yfirvöld standi á kantinum og aðhafist ekki neitt“ segir Sigurður, og hann telur að allur þrýstingur geti haft áhrif.

„Ísland hefur ákveðna sérstöðu hvað mannréttindamál varðar þannig að ég held að það sé alveg á hreinu að við getum lagt þrýsting á Rússa þannig að eftir því sé tekið.“

Sigurður segir lögin vel fordæmanleg og gríðarlega skerðingu á almennu tjáningarfrelsi.

„Í rauninni er verið að stilla þjóðfélagshóp alveg gjörsamlega upp við vegg, sem getur hreinlega ekki tjáð sig neitt um það sem viðkemur þeirra lífi. Slík löggjöf hlýtur að vera fordæmanleg.“

Sigurður segist hafa mikla trú á íslenskum yfirvöldum þegar kemur að mannréttindamálum og á von á því að þau beiti sér í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×