Innlent

Segir Börk hafa slasast í fangaflutningnum

Börkur var borinn sárkvalinn út úr réttarsalnum.
Börkur var borinn sárkvalinn út úr réttarsalnum.

Börkur Birgisson, sem hefur verið ákærður fyrir að verða Sigurði Hólm Sigurðarsyni að bana ásamt Annþór Kristjáni Karlssyni á Litla-Hrauni í maí á síðasta ári, verður fluttur undir læknishendur á morgun vegna meiðsla, sem lögmaður hans vill meina að hann hafi hlotið í fangaflutningum í síðustu viku.

Talið er að Börkur hafi rifið vöðva í öxl eftir að hann var fluttur frá Litla-Hrauni að Héraðsdómi Suðurlands þegar mál þeirra félaga var þingfest.

Lögmaður Barkar, Sveinn Guðmundsson, gagnrýnir flutning á Berki en sérsveitarmenn fylgdu Berki í Héraðsdóm Suðurlands en ekki fangaflutningamenn á vegum fangelsismálastofnunnar, eins og vanalega. Þá gagnrýnir lögmaður Barkar yfirvöld einnig sérstaklega vegna þess að Börkur mun vera með brjósklos og ekki hafi veirð tekið tillit til þess við flutningana.

Í sjónvarpsfréttum mátti sjá hvernig Börkur var dreginn út úr lögreglubíl, handjárnaður fyrir aftan bak, en sjaldgæft er að fangar séu handjárnaðir fyrir aftan bak þegar þeir eru fluttir í dómssal. 

Börkur var fluttur með sjúkrabíl til baka á Litla-Hraun eftir þingfestingu málsins. Nokkrum dögum síðar var læknir kallaður til, en sá mat ástand Barkar sem svo að hann hefði hugsanlega slasast í fangaflutningunum.

Því verður hann fluttur til læknis í fyrramálið, tæplega viku eftir að hann á að hafa slasast. Verjandi Barkar segist hafa farið sérstaklega fram á það að Börkur yrði fluttur eðlilega í Orkuhúsið í Reykjavík þar sem hann verður myndaður og segir um leið að flutningar á Berki hingað til séu án fordæma.

Fyrirtaka í dómsmálinu fer svo fram um miðjan júlí.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×