Lögreglan á Hvolsvelli stýrir nú umferðinni við Heklu og hefur hún varað ferðaþjónustuaðila á svæðinu við að vera þar á ferð. „Það er svo sem engin viðbragðsáætlun í gangi núna, við erum að vara fólk við ferðum á fjallið," segir Sveinn Kristján Rúnarsson. Hann segir að ef eitthvað fer í gang muni þeir stoppa ferðir almennings upp á Landveginn og Búrfellsveginn líka.
Hann segir ómögulegt að segja til um hver langan tíma tæki að rýma svæðið í kring ef til þess kæmi. „Við bindum vonir við það að fólk frétti af þessum viðvörunum núna sem fyrst og að það verði lítið af fólki á Heklusvæðinu sjálfu. Ef það kemur til að við þurfum að rýma svokallaða Heklubæi þá tekur það ekki langan tíma," segir hann. Lögreglan á Hvolsvelli mun áfram fylgjast með og hafa samráð við almannavarnir og jarðvísindamenn.
Fréttastofa náði tali af Haraldi Gísla Kristjánssyni, bónda á Hólum við Heklurætur, rétt fyrir hádegi og hann sá ekkert óvenjulegt í gangi.
Ferðamenn varaðir við að vera nærri Heklu
