Innlent

SMÁÍS hafnar ásökunum um stuld

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Snæbjörn segir SMÁÍS vinna hörðum höndum að því að endursemja.
Snæbjörn segir SMÁÍS vinna hörðum höndum að því að endursemja.
Snæbjörn Steingrímsson, framkvæmdastjóri SMÁÍS, segir það af og frá að samtökin noti hugbúnað í leyfisleysi, en Viðskiptablaðið greinir frá því í dag að ekki hafi verið staðið við samning milli samtakanna og NICAM í Hollandi.

SMÁÍS notast við skoðunarkerfi fyrir aldurs- og innihaldsmerkingar frá NICAM, og að sögn Wim Bekkers, framkvæmdastjóra NICAM, er SMÁÍS í raun að nota kerfið í leyfisleysi, í ljósi þess að engar af samningsbundnum greiðslum fyrir notkun kerfisins hafi borist.

Snæbjörn segir samninginn enn í gildi og að hann renni ekki út fyrr en í júlí á þessu ári. „Þetta er auðvitað vandræðalegt fyrir okkur, ég neita því ekki," segir Snæbjörn, en bætir því við að málið snúist um vanskil samtakanna á greiðslum en ekki ólöglega notkun á hugbúnaði. Þá hafi talsvert verið greitt vegna kerfisins nú þegar.

Ber þeim Snæbirni og Bekkers saman um að verið sé að reyna að endursemja samninginn, en Snæbjörn segir það óeðlilegt að samningsaðili, þá í þessu tilfelli NICAM, fari með trúnaðarupplýsingar um viðsemjanda sinn í fjölmiðla.

SMÁÍS hyggist þó ekki gera athugasemd við það. „Við erum auðvitað ekki í neitt sérlega góðri stöðu til þess að kvarta undan því," segir Snæbjörn og bætir því við að nú hafi allt verið sett í fimmta gír til þess að ljúka málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×