Erlent

Dönsk kirkja auglýsir eftir presti, verður að vera trúaður

Sóknarnefnd Mejdal kirkjunnar sem er skammt frá Viborg í Danmörku hefur auglýst eftir nýjum sóknarpresti. Það vekur athygli í Danmörku að í auglýsingunni er þess krafist að viðkomandi prestur trúi á guð.

Í frétt um málið í Kristeligt Dagblad kemur fram að þetta sé í fyrsta sinn í sögu landsins svo vitað sé að gerð er krafa um að prestur sé trúaður áður en hann er ráðinn til starfa sem slíkur.

Karl Pedersen formaður sóknarnefndar kirkjunnar segir að þessi krafa hafi verið sett inn í auglýsinguna til að leggja áherslu á að söfnuðurinn vill fá trúaðan prest til starfa. Það sé ekki sjálfgefið í dag að allir prestar trúi á guð.

Prestafélag Danmerkur er ekki hrifið af þessu framtaki sóknarnefndarinnar í Mejdal kirkjunni. Í fréttinni er haft eftir Per Andreasen formanni félagsins að auglýsingin sé forkastanleg. Það sé ekki hægt að mæla trú fólks og dæma þar með einhverja umsækjendur óhæfa. Andreasen varpar einnig fram spurningunni um hver, eða hverjir, eigi að meta trúarhita umsækjenda.

Manu Sareen kirkjumálaráðherra Dana undrar sig á þessari auglýsingu og telur að sóknarnefndin hafi ekki hugsað málið til enda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×