Innlent

Brotnaði illa í andliti

Maðurinn var fluttur með sjúkrabíl á Landspítalann.
Maðurinn var fluttur með sjúkrabíl á Landspítalann. Fréttablaðið/vilhelm
Lögreglumál Karlmaður var fluttur illa slasaður á spítala eftir torfæruslys rétt utan við Flúðir á fjórða tímanum í fyrrinótt. Hann reyndist mikið brotinn í andliti en er ekki í lífshættu.

Þrír menn voru í bílnum, tveir yfir fertugu og einn innan við fertugt. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu voru þeir allir drukknir. Hinir óslösuðu neituðu að gefa upp hver hafði ekið bílnum eða annað um málsatvik og voru látnir sofa úr sér í fangaklefa. Þeir voru svo yfirheyrðir í gær.

Í bílnum, sem lögreglan lýsir sem óskráðum, fullbúnum torfærubíl sem einhvern tímann gæti hafa verið Willy‘s-jeppi, eru aðeins tvö sæti. Mennirnir voru hins vegar þrír í honum þegar hann valt í brekku utan vegar.

Þegar ljóst varð hve illa einn þeirra var slasaður neyddust hinir til að hringja eftir sjúkrabíl þrátt fyrir ástand sitt. Maðurinn komst til meðvitundar í sjúkrabílnum á leið sinni á Landspítalann í Reykjavík. Þar gekkst hann undir aðgerð í gærmorgun. Lögregla hyggst yfirheyra hann þegar færi gefst. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×