Innlent

Vegakerfið verður ekki bætt á einum degi

g. Pétur Matthíasson
g. Pétur Matthíasson
„Vegakerfið í umsjá Vegagerðarinnar er 13 þúsund kílómetrar og þegar veghönnunarreglum er breytt segir það sig sjálft að þann sama dag verða 13 þúsund kílómetrar ekki aðlagaðir að reglum.“ Þetta segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, um fullyrðingar Ólafs Guðmundssonar, fulltrúa EuroRAP á Íslandi, í Fréttablaðinu í gær.

Ólafur segir að frágangi vegriða á Íslandi sé mjög ábótavant og að Vegagerðin fylgist ekki nógu vel með áherslum yfirvalda erlendis í vegamálum. Staðlar séu ekki uppfylltir á vegum á Íslandi og lítið sé gert til að lagfæra það sem ekki uppfyllir öryggisviðmið nútímans.

„Það er tóm vitleysa að menn fylgist ekki nógu vel með,“ segir G. Pétur. „Við fylgjumst einmitt mjög vel með og erum í miklu alþjóðlegu samstarfi við bæði evrópska og norræna aðila um umferðaröryggismál.“

G. Pétur bendir á að unnið hafi verið eftir nýjum veghönnunarreglum frá því að þær tóku gildi árið 2009. Nýjar reglur eru hins vegar kostnaðarsamari en þær gömlu og fjárveiting ríkisins til vegamála er takmörkuð.

Gríðarlegt átak hafi þó verið gert í að lengja gömul vegrið og ganga frá vegriðsendum á öllu landinu. „Við erum með umferðaröryggisáætlun stjórnvalda sem við förum eftir og það hefur verið sett sérstakt fé í umferðaröryggi.“

Ólafur segir einnig að Ísland sé þróunarland í vegagerð en G. Pétur segir það ekki rétt. „Það er tóm firra að við séum þróunarland í vegagerð. Sérstaklega þegar komið er að umferðaröryggi. Við erum meðal þeirra fimm landa sem hafa fæst dauðaslys í umferðinni í heiminum. Það sama gildir um önnur slys.“

Þá segir G. Pétur að unnið sé markvisst að úrbótum á vegakerfinu, bæði á nýjum vegum og gömlum.- bþh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×