Innlent

Óþekkt hverjir njóta risnufjár á Akranesi

Frjálslega virðist farið með skráningu á útgjöldum Akraneskaupstaðar vegna gjafa og risnu.
Frjálslega virðist farið með skráningu á útgjöldum Akraneskaupstaðar vegna gjafa og risnu. Fréttablaðið/GVA
„Þetta er ekki í lagi og ég held að það sé margt annað sem er ekki í lagi,“ segir Gunnar Sigurðsson, varaáheyrnarfulltrúi, sem fékk samþykkta tillögu í bæjarráði Akraness um að settar verði skýrar reglur um risnu, gjafir og gestamóttökur á vegum bæjarins.

Í skýrslu sem endurskoðandi bæjarins gerði kemur fram að í fyrra hafi bæjarsjóður greitt 87 prósentum meira til móttöku gesta, risnu og gjafa en áætlað hafði verið.

„Skráningu um tilefni risnu og gjafa er víða ábótavant og í flestum tilfellum er ekki skráð hverjir njóta. Við teljum eðlilegt að bæjarstjórn móti reglur um móttöku gesta, risnu og gjafir, þar með talið gagnvart kjörnum fulltrúum og starfsmönnum,“ segir í endurskoðunarskýrslunni þar sem fram kemur að útgjöldin til þessara liða hafi verið 5,4 milljónir króna í fyrra. Það hafi verið 2,5 milljónum umfram áætlun.

Gunnar kveðst hafa óskað eftir og fengið afrit af öllum reikningum varðandi þessi mál. „Þetta virðist vera mjög handahófskennt. Með sumum reikningum eru engar skýringar,“ segir Gunnar og upplýsir að reikningarnir séu fyrir margvíslega hluti; mat og gjafir. „Það virðist vera fullt af fólki sem hefur haft heimild til þess að taka út hjá bænum og litlar skýringar sem fylgja.“

Aðspurður kveðst Gunnar, sem sjálfur var um skeið forseti bæjarstjórnar fyrir hönd Sjálfstæðisflokks, ekki telja að vanhöld á skráningu risnu og gjafa séu nýtilkomin hjá Akranesbæ. „Ég held að það hafi komið fram athugasemdir áður, en þessi endurskoðunarskýrsla hefur vanalega verið trúnaðarmál þar til núna,“ upplýsir hann.

Samkvæmt samþykkt bæjarráðs á starfsmanna- og gæðastjóri Akraness að semja reglur um notkun starfsmanna bæjarins á risnu, gjöfum og móttöku gesta fyrir 15. ágúst 2012. Þá var Jóni Pálma Pálssyni bæjarritara falið að taka saman kostnað vegna þessara liða undanfarin fimm ár.

Í minnisblaði sem Jón lagði fram í bæjarráði í gær segist hann taka undir að skráningu sé ábótavant. Hins vegar sé framsetning endurskoðanda á meintum umframkostnaði röng. „Þeim upplýsingum hefur margoft verið komið á framfæri við starfsmann endurskoðunarfyrirtækisins,“ segir í minnisblaðinu.

Einnig kemur fram að á árunum 2006 til 2009 hafi meðalútgjöld til þessa liðar verið 13,3 milljónir króna á ári eða tvöfalt hærri en á árunum 2010 og 2011 þegar 6,6 milljónir fóru í þennan lið.

Að endingu segir Jón könnun sína meðal annarra sveitarfélaga hafa leitt í ljós að þau hafi almennt ekki séð ástæðu til setningar reglna eins og þeirra sem nú sé rætt um Akranesi. gar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×