Menning

Bókaárið 2012: Ár Gyrðis, Gísla og grárra skugga

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Maður ársins. Gyrðir Elíasson sendi frá sér tvær bækur á árinu auk þess að hljóta Íslensku þýðingaverðlaunin fyrir ljóðaþýðingasafnið Tunglið braust inn í húsið. Fréttablaðið/Anton
Maður ársins. Gyrðir Elíasson sendi frá sér tvær bækur á árinu auk þess að hljóta Íslensku þýðingaverðlaunin fyrir ljóðaþýðingasafnið Tunglið braust inn í húsið. Fréttablaðið/Anton
Segja má að afhending bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs þann 2. nóvember 2011 hafi gefið tóninn fyrir bókaárið 2012. Þar tók Gyrðir Elíasson við verðskulduðum verðlaunum fyrir smásagnasafnið Milli trjánna og það má færa gild rök fyrir því að 2012 hafi verið ár Gyrðis.

Hann hlaut Íslensku þýðingaverðlaunin fyrir ljóðasafnið Tunglið braust inn í húsið í apríl. Í vor sendi hann frá sér ljóðasafnið Hér vex enginn sítrónuviður, sem hlaut einróma lof og Egill Helgason tilkynnti í Kiljunni að væri sennilega bókmenntatíðindi ársins. Gyrðir lét ekki þar við sitja heldur sendi á haustdögum frá sér skáldsöguna Suðurgluggann sem sömuleiðis vakti einróma hrifningu og er tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í ár.

Í bókakrítík Fréttablaðsins hlaut hvor bók um sig hvorki meira né minna en fimm stjörnur og er árið 2012 því tíu stjarna ár hjá Gyrði. Geri aðrir betur.

Í heild var bókaárið óvenju glæsilegt. Metfjöldi skáldrita kom út á árinu og mjög margir af okkar viðurkenndustu höfundum sendu frá sér skáldsögur. Svo römm var einokun "gömlu" höfundanna á markaðnum að nýliðar áttu vart möguleika á að koma bókum sínum á framfæri. Útgáfa á bókum eftir áður óútgefna höfunda fór fram á miðju sumri eða hjá litlu forlögunum, jólabókavertíðin hjá stóru forlögunum var þéttskipuð kanónum sem sagan segir að hafi verið í startholunum fyrir bókamessuna í Frankfurt í fyrra en ekki náð að klára.

Eins og við mátti búast frá þessu stórskotaliði er mikið um góðar skáldsögur í ár. Flestir höfundanna halda sig á gamalkunnum slóðum í söguefni og efnistökum, gera það sem þeir gera best og gera það vel. Eini óvænti smellurinn er Illska Eiríks Arnar Norðdahl sem vakið hefur mikla athygli og hrifningu, skotið Eiríki úr röðum jaðarskálda í fremstu röð íslenskra skáldsagnahöfunda og er tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Ævisagan er sprelllifandi

Annar óvæntur smellur er ævisaga Gísla á Uppsölum eftir Ingibjörgu Reynisdóttur sem trónað hefur á toppi metsölulista öllum að óvörum. Spár um endalok ævisögunnar virðast því úr lausu lofti gripnar og því til áréttingar hefur ævisaga Ellyjar Vilhjálms, sem Margrét Blöndal skráði, selst eins og hinar margumtöluðu heitu lummur. Svavar Gestsson sendir frá sér sjálfsævisögu með áherslu á pólitískan feril, Jón Gnarr sendir frá sér skáldaða ævisögu þar sem óhugnanlegar myndir af einelti eru ríkjandi og Borghildur Guðmundsdóttir lýsir hatrammri baráttu sinni fyrir börnum sínum í sinni bók, svo nokkur dæmi séu tekin.

Viðtalsbókin virðist hins vegar liðin undir lok og sjálfsævisögur þar sem höfundur rekur líf sitt frá a til ö eru á undanhaldi. Breytingin í áherslum í ævisagnaútgáfu birtast í því að mikil gróska hefur ríkt í vönduðum ævisögum liðinna stórmenna undanfarin ár og á þessu ári ber þar hæst bók Gunnars F. Guðmundssonar um æviferil Jóns Sveinssonar, Nonna. Appelsínur frá Abkasíu eftir Jón Ólafsson vegur salt á brún ævisagnageirans, en þar eru örlög Veru Hertzsch í brennipunkti.

Barnabókin blómstrar

Þótt nýir höfundar eigi ekki auðvelt með að komast inn á skáldsögumarkaðinn fyrir fullorðna gildir öðru máli um barnabækur. Þar virðist eftirspurnin eftir ferskum röddum vera mikil. Nýliðarnir Kjartan Yngvi Björnsson og Snæbjörn Brynjarsson hlutu Íslensku Barnabókaverðlaunin fyrir bókina Hrafnsauga, Þórdís Gísladóttir hefur vakið mikla athygli fyrir Randalín og Munda, Kristján Hjálmarsson skaust í sviðsljósið með Flóðhestinn sem vildi sjá rassinn á sér og fleiri mætti nefna. Auk þess eru margir okkar bestu barnabókahöfunda með bækur í ár og sumir mundu jafnvel ganga svo langt að segja að mesta gróskan í íslenskum bókmenntum væri í barnabókaskrifum.

Erótík og furðusögur

Erótíska bylgjan margumtalaða stakk sér niður á Íslandi með útgáfu frægustu bókarinnar úr þeim flokki, 50 gráir skuggar eftir. E.L. James. Í kjölfarið sigldi Þú afhjúpar mig eftir Sylviu Day og síðan bók númer tvö í skuggaflokknum. Íslenskir höfundar hafa ekki enn hoppað upp í vagn erótíkur svo neinu nemi, að frátalinni Sirrý Sig sem sendi frá sér erótíska rafbók. Fantasíur íslenskra kvenna sem Hildur Sverrisdóttir safnaði saman og bjó til útgáfu slá þó tóninn fyrir næstu bókavertíð, að sögn eins útgefanda, og búast má við aukningu í útgáfu erótískra bóka 2013.

Annað heimstrend, furðusögur og fantasíur, er að byrja að skjóta hér rótum; Emil Hjörvar Peterssen og Elí Freysson sendu báðir frá sér aðra bókina í framhaldsflokkum sínum í þessum geira og Davíð Þór Jónsson sendi frá sér sína fyrstu skáldsögu sem rækilega fellur í þennan flokk. Game of Thrones kom út á íslensku og nokkuð ljóst að við höfum rétt fengið smjörþefinn af furðusagnaheiminum.

Þýðingar á metsölubókum

Þýðingaárið var gjöfult þótt ekki kæmu út neinar þýðingar á stórvirkjum heimsbókmenntanna. Bækur sem notið hafa velgengni erlendis undanfarið voru hins vegar þýddar um hæl og Íslendingar gátu til dæmis lesið nýja skáldsögu J.K. Rowling á íslensku nokkrum vikum eftir að hún kom út á frummálinu. Krimmar, flestir frá Skandinavíu, voru þýddir í erg og gríð og yfir höfuð stóð þýðingaútgáfa með miklum blóma.

Gjöfult ár

Eins og gefur að skilja er hér farið ansi hratt yfir sögu. Ýmsum kann til dæmis að finnast að ljóða- og fræðibækur liggi óbættar hjá garði. Þó áttu ekki minni skáld en Gerður Kristný og Sigurður Pálsson merkisbækur í flóðinu og fræðibókaútgáfan var öflug. Heilt yfir var bókaárið hið glæsilegasta, 1.012 titlar, og vonandi að fólk haldi áfram að lesa og ræða útgáfuna þótt vertíð sé formlega lokið og nýtt bókaár gangi í garð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×