Innlent

„Frekar grillað“ að fara í strætó til Eyja

Þau Ísold, Almar, Arnar Már og Bjarki ætla að skemmta sér konunglega í Eyjum um helgina og hlökkuðu mikið til þegar þau stigu um borð í strætisvagninn.
Þau Ísold, Almar, Arnar Már og Bjarki ætla að skemmta sér konunglega í Eyjum um helgina og hlökkuðu mikið til þegar þau stigu um borð í strætisvagninn. fréttablaðið/stefán
Strætó fjölgaði aukaferðum að Landeyjahöfn í gær og fer fleiri aukaferðir frá Landeyjum á mánudag. Ferðirnar eru vel sóttar, segir þjónustufulltrúi Strætó. Allir hlökkuðu mikið til Þjóðhátíðar þegar lagt var í hann frá Mjóddinni.

Strætó fór fjórar aukaferðir austur að Landeyjahöfn með þjóðhátíðargesti á leið í Herjólf í gær. Samkvæmt upplýsingum frá Strætó hafa ferðirnar verið almennt vel sóttar og fullt hefur verið í nokkrar.

Leið 52 ekur milli Reykjavíkur og Landeyjahafnar dag hvern en Strætó hefur fjölgað ferðum í takt við fjölgun ferða Herjólfs til Vestmannaeyja.

„Það hafa verið um það bil þrjátíu manns í hverri ferð, sýnist mér,“ segir Hilmir Kolbeins, þjónustufulltrúi hjá Strætó. Hann segir fleiri hafa verið með í gær en daginn áður. „Við erum ekki með aukaferðir í dag heldur ökum við bara eftir áætlun.“

Ungmennum, sem voru á leið til Vestmannaeyja, leist vel á fararskjótann en fannst það skjóta skökku við að fara í strætó á Þjóðhátíð í Eyjum. „Það er alveg frekar grillað en ég held að það verði mjög mikil stemning,“ sagði Melkorka Kormáksdóttir, sautján ára, sem sat í strætóskýli í Mjóddinni, ásamt vinkonu sinni Berglindi Björk Kristjánsdóttur, áður en vagninn fór. Þær eru að fara á Þjóðhátíð í fyrsta sinn og hlakka mjög mikið til enda hátíðin margrómuð meðal íslenskra ungmenna sem eitt skemmtilegasta djamm sumarsins.

„Við höfum ekki farið í strætó til Eyja áður,“ sagði hinn tvítugi Bjarki Björgvinsson, en hann og ferðafélagar hans, þau Ísold Antonsdóttir, Almar Þorleifsson og Arnar Már Kjartansson, ætla að fá að tjalda í garði hjá fúsum heimamanni. Ísold verður í íbúð með vinkonum sínum sem þær hafa leigt.

„Ég veit eiginlega ekki af hverju ég er að gista í íbúð því maður á eftir að vera bara í dalnum,“ sagði Ísold. „Það vill enginn geyma dótið sitt þar en það vilja allir vera þar.“

Strætó mun aka nokkrar aukaferðir frá Landeyjahöfn á mánudag og þriðjudag. Hilmir hvetur þá ferðalanga sem hafa hug á að ferðast með Strætó frá Landeyjum á mánudag að panta sér miða því sætin séu nú þegar eftirsótt. „Við erum nú þegar búin að bæta við einum aukavagni og það er spurning hversu mörgum við getum bætt við til viðbótar,“ segir Hilmir.

birgirh@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×