Innlent

Fundu fjall vestur af Snæfellsnesi

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Neðansjávar Lögun neðansjávarfjalls sem fannst í nýjum mælingum Hafró er sögð sláandi lík móbergsstapa.
Neðansjávar Lögun neðansjávarfjalls sem fannst í nýjum mælingum Hafró er sögð sláandi lík móbergsstapa. Mynd/Hafró
Fjall sem Hafrannsóknastofnunin (Hafró) fann neðansjávar í nýjum leiðangri sínum kann að vera tuttugu milljón ára gamalt.

„Fjölgeislamælingarnar í leiðangri á rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni fyrr í sumar leiddu í ljós umfangsmikið neðansjávarfjall djúpt undan rótum landgrunnsins um 120 sjómílur vestur af Snæfellsnesi,“ segir í tilkynningu Hafró. Fjallið, sem er á 950 til 1.400 metra dýpi, er sagt um 450 metra hátt, álíka hátt og Ingólfsfjall.

„Sá hluti þess sem var kortlagður er um 300 ferkílómetrar að umfangi sem er tífalt flatarmál Ingólfsfjalls,“ segir í umfjöllun Hafró.

Lögun fjallsins er sögð sláandi lík móbergsstapa og hafa yfir sér unglegt yfirbragð.

„Sýnataka með greiningu bergsins er nauðsynleg til að ganga úr skugga um hvort sú sé raunin eða hvort um er að ræða eldstöð sem tengist gömlu rekbelti og er þá hugsanlega um 20 milljón ára.“

Í leiðangrinum voru gerðar fjölgeislamælingar djúpt vestur af landinu, í Vesturdjúpi allt norður að Grænlandssundi, með það að markmiði að kortleggja botnlögun á þekktri veiðislóð og kanna umhverfi öflugra hafstrauma sem fara um Grænlandssund. Alls voru mældir um 9.000 ferkílómetrar í ellefu daga leiðangri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×