Innlent

Ofbeldisbrotum og innbrotum fækkaði 2011

Stefán Eiríksson
Stefán Eiríksson
Ofbeldisbrotum og innbrotum fækkaði verulega á höfuðborgarsvæðinu á síðasta ári. Þá fækkaði skemmdarverkum einnig en kynferðisbrotum fjölgaði. Þetta er meðal þess sem kemur fram í ársskýrslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir árið 2011 sem kom út á þriðjudag.

Stefán Eiríksson lögreglustjóri segir lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hafa gengið vel að ná markmiðum sínum á árinu 2011 í pistli í skýrslunni. Það sjáist best í fækkun afbrota og því mikla trausti sem almenningur ber til lögreglunnar og hennar starfa. Kemur fram í skýrslunni að í viðhorfskönnun sem lögð var fyrir íbúa síðasta sumar hafi tæplega 85% þátttakenda talið lögregluna skila mjög eða nokkuð góðu starfi.

Eins og áður sagði fækkaði innbrotum verulega á milli ára. Þannig voru að meðaltali framin fjögur innbrot í umdæminu á dag árið 2011 en þau voru sex árið 2010. Rán voru um fjörutíu og flest framin í tengslum við fíkniefnaskuldir.

Ofbeldisbrotum fækkaði einnig á milli ára og voru minni háttar líkamsárásir færri en um árabil. Alvarlegar líkamsárásir voru um hundrað á árinu sem er ámóta og undanfarin ár. Þá voru þrjú manndrápsmál til rannsóknar hjá lögreglunni sem er óvanalega mikið.

Í skýrslunni segir að það verði verðugt verkefni að fækka alvarlegum ofbeldisbrotum auk þess sem áhyggjum er lýst af auknum vopnaburði.- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×