Innlent

Fiskar í Kleifarvatni sagðir í andarslitrum

Vatnsborðið lækkaði um einn metra á einu ári eftir Suðurlandsskjálftann árið 2000 og flatarmál vatnsins minnkaði um fimmtung. Kafarar eru sagðir hafa komið auga á mikið af dauðum fiski. Veiðimenn óttast að vatnið mettist af brennisteinsvetni.
Vatnsborðið lækkaði um einn metra á einu ári eftir Suðurlandsskjálftann árið 2000 og flatarmál vatnsins minnkaði um fimmtung. Kafarar eru sagðir hafa komið auga á mikið af dauðum fiski. Veiðimenn óttast að vatnið mettist af brennisteinsvetni. Mynd/Héðinn Ólafsson
„Það er eitthvað mikið að ske þarna og mikið að,“ segir stangveiðimaðurinn Guðmundur Falk á spjallsvæði vefsins veidi.is þar sem hann gerir stöðuna í lífríkinu í Kleifarvatni að umtalsefni.

„Kafari sem ég þekki til fór í Kleifarvatn, og ekki bara á helstu staði þar sem kafað er, heldur við austurlandið líka og er mikið af dauðum fiski í botninum, bæði stór og smár og mikil rotnun,“ skrifar Guðmundur á veidi.is.

Ekki náðist í Guðmund í gær en í færslu á spjallsvæðinu spyr hann hvort ekki þurfi að athuga með gæði vatnsins. Brennisteinsvetni streymi upp um sprungur á botni vatnsins og sé að aukast það mikið að það drepi fiskinn.

Stangaveiðifélag Hafnarfjarðar hefur Kleifarvatn til umráða og selur þar veiðileyfi. Vilborg Reynisdóttir, formaður félagsins, kveðst ekki hafa vitneskju um stórfelldan fiskadauða í vatninu.

„Við vildum helst að viðkomandi kafari myndi láta okkur vita hvar þetta er svo við getum farið í einhverja rannsókn,“ segir Vilborg og bendir á að svæðið sé jarðfræðilega óstöðugt. „Það getur komið gas upp og fiskurinn synt yfir. Þetta gæti hafa gerst í mörg ár án þess að við vitum af því,“ bætir hún við og kveðst ætla að setja sig í samband við Veiðimálastofnun. „Ég ætla að athuga hvort þeir geti ekki liðsinnt okkur með þetta.“

Þórólfur Antonsson fiskifræðingur segir Veiðimálastofnun ekki hafa haft spurnir af fiskadauða í Kleifarvatni. Þórólfur minnir á að miklar breytingar hafi orðið við Kleifarvatn eftir Suðurlandsskjálftann árið 2000. Vatnsborðið hafi lækkað afar mikið en sé þó breytilegt og hverir kraumi undir yfirborðinu. „Það er því ekki að furða þótt eitthvað gangi á en við höfum ekki gert neinar rannsóknir á því,“ segir hann.

Þórólfur segir ýmis efni koma upp með heita vatninu og eftir því sem yfirborð Kleifarvatns lækki hafi þessi efni hlutfallslega meiri áhrif. „Svo gæti þetta verið staðbundið í vatninu og fiskurinn villst inn á einhver svæði sem eru slæm,“ segir hann og bætir við að Veiðimálastofnun vildi gjarnan að betur væri fylgst með Kleifarvatni í kjölfar þeirra breytinga sem orðnar eru vegna jarðskjálftanna. gar@frettabladid.isAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.