Innlent

Lögregla fylgist ekki með ólöglegum hjólum

Búnaðurinn er ekki fyrirferðarmikill en öflugur.
Búnaðurinn er ekki fyrirferðarmikill en öflugur. fréttablaðið/ernir
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur ekkert eftirlit með rafhjólum og reiðhjólum sem hafa verið mótorvædd. Mótorknúin hjól mega ekki fara hraðar en 25 kílómetra á klukkustund án þess að þau séu skráð sem létt bifhjól. Lögreglan segist vita um dæmi þess að innsigli á hjólunum hafi verið rifin svo þau fari hraðar.

Einar Magnús Magnússon hjá Umferðarstofu segir að ekki þurfi að skrá innflutt rafhjól og hjól sem er breytt. Hann segir það varða við lög sé fiktað í rafhjólum svo þau komist hraðar. „Það er hreint og klárt brot á lögum að taka innsiglið af þannig að hjólið komist hraðar en 25 kílómetra á klukkustund. Nema maður fari með hjólið og láti skrá það á númer,“ segir Einar Magnús. Skráð hjól mega hins vegar ekki aka á göngustígum og um þau gilda aldurstakmörk.

Til eru tvær gerðir rafhjóla í þessum flokki. Það eru rafknúin hjól í líki vespu og reiðhjól sem hafa verið mótorvædd. Sprotafyrirtækið Rafhjól hefur síðan árið 2008 breytt yfir 400 hjólum og um 200 hjólum í ár.

„Ástæðan fyrir því að við höfum ekki breytt meira í ár er að það er svo mikið að gera. Við höfum einfaldlega ekki haft undan,“ segir Gunnar Gunnarsson hjá Rafhjólum. Fyrirtækið breytir nú hjólum með þeirra eigin búnaði sem erfiðara er að eiga við svo hjólið komist hraðar.

„Lögreglan er samstarfsaðili okkar og fór á fyrsta hjólið með nýja búnaðinum í sumar,“ segir Gunnar og bendir á að öll hjól sem afgreidd hafa verið frá Rafhjólum standist reglur. „Við uppfyllum öll skilyrði laga enda myndi lögreglan aldrei setjast upp á hjól sem standast ekki lög og reglur.“ - bþh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×