Innlent

Undirbúa stofnun íslensks sjóræningjaflokks

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir, þingkona Hreyfingarinnar, undirbýr nú stofnun nýs stjórnmálaflokks ásamt hópi fólks. Flokkurinn er kallaður Píratapartýið en hann sækir fyrirmyndir sínar til svokallaðra sjóræningjaflokka sem hafa boðið fram í fjölda landa. Stefnir hópurinn á framboð í næstu alþingiskosningum.

„Grunnstef þessara flokka fellur mjög vel að þeim málefnum sem ég hef lagt mesta áherslu á svo sem hvað varðar beint lýðræði, tjáningarfrelsi, beint aðgengi almennings að upplýsingum og friðhelgi einkalífsins á 21. öldinni,“ segir Birgitta og heldur áfram: „Þá finnst mér mikilvægt að búa til vettvang fyrir fólk sem hefur hingað til ekki haft neinn áhuga á stjórnmálum. Þá er ég helst að horfa til ungs fólks sem píratarnir víða um heim hafa helst verið að ná til.“

Birgitta segir að flokkurinn hafi enn ekki verið stofnaður formlega. Áhugi fjölmiðla á flokknum hafi því kannski komið of snemma þar sem flokkurinn sé enn á undirbúningsstigi. Greindi DV frá því í gær að verið væri að undirbúa stofnun flokksins og kom meðal annars fram í frétt blaðsins að Jón Gnarr, borgarstjóri Reykjavíkur, hefði sýnt áhuga á þátttöku.

Eins og áður sagði er Birgitta þingmaður Hreyfingarinnar og segist hún ætla að vera það áfram út kjörtímabilið. Hún hefur hins vegar hætt þátttöku í Dögun, nýjum stjórnmálasamtökum sem Hreyfingin rann nýverið inn í.

Píratapartýið byggir á erlendri fyrirmynd en flokkar sem kenna sig við sjóræningja hafa sprottið upp í ríflega 40 löndum. Þá hafa slíkir flokkar eignast kjörinn fulltrúa í alls sjö löndum, þar á meðal í Þýskalandi og í Svíþjóð.

Hafa sjóræningjaflokkarnir í störfum sínum lagt áherslu á beint lýðræði, mannréttindi og upplýsingafrelsi en margir flokkanna hafa barist fyrir frjálsum skráarskiptum á netinu.- mþl



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×