Innlent

Forystukonu illa við vínsölu á Hrafnistu

Glæsilegur borðsalur í eins konar bókakaffisstíl verður opnaður á Hrafnistu í haust. Þar verður selt áfengi til klukkan átta á kvöldin.
Glæsilegur borðsalur í eins konar bókakaffisstíl verður opnaður á Hrafnistu í haust. Þar verður selt áfengi til klukkan átta á kvöldin. Mynd/Hrafnista
Formanni Landssambands eldri borgara er illa við áformaða áfengissölu á Hrafnistu. Formaður Samtaka aldraðra segir að ekki megi hefta eldri borgara. Málið sé þó viðkvæmt því sumum öldruðum sé hætt við misnotkun á áfengi.

„Mér finnst þetta ekki vera hlutur sem verður til þess að eldri borgurum líði vel,“ segir Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara, um fyrirhugaða áfengissölu á Hrafnistu í Reykjavík.

Eins og Fréttablaðið skýrði frá í gær er verið að breyta borðsal heimilisfólks á Hrafnistu í kaffihús þar sem hægt verður að kaupa bjór og vín. „Ég er nú bindindismanneskja í eðli mínu og finnst þetta dálítið furðulegt og skil þetta ekki almennilega,“ segir Jóna sem kveðst ekki hafa heyrt af málinu fyrr.

„Hins vegar hef ég heyrt frá Vogi að það hafi aukist að það séu eldri borgarar sem þurfi þar að leita sér aðstoðar,“ segir Jóna. Til stendur að opna sérstaka deild fyrir aldraða þar.

Erling Garðar Jónasson, formaður Samtaka aldraðra, segir málið viðkvæmt. „Á öllum aldursskeiðum þurfum við að hafa visst frjálsræði og aðgengi að samfélaginu. Það er grundvallaratriði en aðgangur að áfengi í óheftum mæli getur fyrir suma verið mjög óheppilegt. Þess vegna þarf að fara varlega,“ segir Erling og undirstrikar að mannréttindi þessa hóps séu í húfi.

„Við skulum heldur ekki gleyma því að fólk fer bara og nær í áfengi ef það vill það. Ef það kemst ekki sjálft þá sendir það leigubíl eftir því. Þá verður neyslan meiri og erfiðari og meiri leyndarhjúpur yfir henni,“ segir Erling.

Jóna segist telja ýmislegt mikilvægara fyrir eldri borgara að gera en að hefja vínsölu á hjúkrunarheimilum. „Kaffihús væri allt í lagi að setja upp. Fólki finnst oft gaman að setjast niður saman og fá sér kaffi en það slær mig frekar illa að það sé vínveitingaleyfi þar,“ segir Jóna.

Erling minnir á að einangrun gamals fólks sé oft mikil. „Þá leita sumir á náðir lyfja eins og áfengis til að eyða tímanum eða lina þjáningar,“ segir hann og vill gefa hugmyndinni á Hrafnistu tækifæri. „Við skulum leyfa þeim að prófa. Þeir eru með hjúkrunarlið á heimsmælikvarða þannig að það er gætt að hverjum einasta sjúklingi mörgum sinnum á dag.“

gar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×