Innlent

Óbreyttir mokveiddu í boði borgarstjórnar

Elínborg Ragnarsdóttir
Fallegur lax úr Sjávarfossi í höndum ánægðar veiðikonu.
Elínborg Ragnarsdóttir Fallegur lax úr Sjávarfossi í höndum ánægðar veiðikonu. Mynd/Reykjavíkurborg
Nokkrir borgarstarfsmenn gerðu góða ferð inn að Elliðaám í síðustu viku og lönduðu 27 löxum á einum degi. Borgarfulltrúar og fyrrverandi borgarstjórar eru áfram úti í kuldanum eftir áratuga forgang að veiðidögum borgarinnar.

Sannkallað mok mun hafa verið í Elliðaánum á föstudaginn þegar starfsmenn Reykjavíkurborgar mættu þar á bakkana. Alls veiddust 27 laxar á stangirnar sex sem er aldeilis skínandi árangur.

Elínborg Ragnarsdóttir af framkvæmda- og eignasviði borgarinnar var ein þeirra sem átti góðan dag í Elliðaánum. „Ég hef veitt einu sinni í Elliðaánum áður en er samt algjör amatör og hefði ekki fengið þessa tvo fiska nema fyrir góða aðstoða frá manni úr Stangaveiðifélaginu,“ segir Elínborg.

Sagt er frá því á vef Reykjavíkurborgar að borgin hafi fimm daga til umráða í Elliðaánum í sumar. Þar af veiði borgarstarfsmenn og „hvunndagshetjur“ í þrjá daga. Fyrirkomulaginu var breytt í fyrra.

„Áður voru þessir dagar notaðir af borgarfulltrúum, gestum Orkuveitu Reykjavíkur og fyrrverandi borgarstjórum. Nú er hafður sá háttur á að starfsmenn Reykjavíkurborgar eru hvattir til þess að benda á dugmikla samstarfsmenn sína og hefur það mælst afar vel fyrir,“ segir á reykjavik.is.

Veiðimenn borgarinnar á föstudag nutu aðstoðar frá félögum í Stangaveiðifélagi Reykjavíkur sem síðan fær tvo daga af áðurnefndum fimm fyrir barna- og unglingastarf félagsins.

„Þetta var stórkemmtilegur dagur og afar sérstakt að vera á veiðum innan um skokkara og hjólreiðafólk,“ segir Elínborg sem hafði landað tveggja laxa kvóta sínum strax klukkan ellefu. Og þar sem hún veiddi á maðk varð hún að hætta veiðunum við svo búið. Þeir sem veiddu á flugu gátu hins vegar haldið áfram þótt kvótanum væri náð þar sem mun hægara er að sleppa aftur laxi sem veiddur er á flugu.

Elínborg kveður fiskana sem hún veiddi hafa verið afar spræka og tekið vel í. „Ég er búin að elda annan þeirra og hann var feikilega góður.“ gar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×