Innlent

Bjóða upp á áfenga drykki á Hrafnistu

„Við erum bara að auka þjónustuna við fólkið okkar," segir Pétur Magnússon, forstjóri Hrafnistu í Reykjavík, sem sótt hefur um vínveitingaleyfi fyrir kaffihús sem opnað verður í dvalarheimilinu í sumarlok.

Um er að ræða nýjung sem á aðeins við um dvalarheimili Hrafnistu í Reykjavík. „Við erum að endurnýja matsal heimilismanna og gera þar kaffihúsastemningu. Þar geta heimilismenn, þeirra gestir og aðrir keypt sér vín með mat og öðru ef þeir hafa áhuga á," útskýrir forstjórinn.

Sækja þarf um leyfi til að selja áfengi og það mál er nú í sínu ferli. Skipulagstjórinn í Reykjavík segir fyrir sitt leyti engar skipulagslegar forsendur í veginum.

„Með þessu geta Pétur og Páll dottið inn og heimsótt sitt fólk og farið með því í kaffi því að margir af okkur heimilismönnum eru í þannig ástandi að þeir eiga mjög erfitt með að fara út í bæ á kaffihús. Það er okkar stefna að hafa sem fjölbreyttasta þjónustu fyrir okkar fólk og aðra sem hér eru," segir Pétur.

Sem fyrr segir er um nýjung að ræða og forstjórinn segir í raun um ákveðna byltingu að ræða. „Við erum með ýmsar hátíðir og skemmtanir með heimilismönnum. Þá er kannski fínn kvöldverður og skemmtiatriði og þá er gaman að því að fólkið geti fengið sér léttvín og bjór með matnum. Og ef heimilismenn vilja setjast út í sólina með rauðvín þá er það bara hið besta mál," segir forstjórinn.

Að sögn Péturs er áætlað að matsalurinn gamli opni sem nýtt kaffihús í lok ágúst eða byrjun september. Salurinn er nú lokaður í nokkra mánuði á meðan verið er að endurnýja innréttingar og annað þar innanstokks.

Fréttablaðið hefur sagt frá því að áfengisneysla eldri borgara hafi aukist töluvert á undanförnum árum. Pétur kveðst ekki hafa áhyggjur af þessu í sambandi við vínveitingar á Hrafnistu.

„Við fylgjumst með því hjá okkar heimilisfólki og ef þetta verður virkilegt vandamál þá skoðum við það með viðkomandi. Við höfum ekki fengið neinar athugasemdir ennþá heldur bara ánægju þar sem við höfum kynnt þetta," segir forstjóri Hrafnistu.

- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×