Innlent

Vinnulag Gunnlaugs ekki til fyrirmyndar

Vinnueftirlitið er ekki sátt við þau vinnubrögð sem viðhöfð eru í þáttum Gunnlaugs Helgasonar á RÚV.
Vinnueftirlitið er ekki sátt við þau vinnubrögð sem viðhöfð eru í þáttum Gunnlaugs Helgasonar á RÚV. fréttablaðið/pjetur
Vinnueftirlitið gerir alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð Gunnlaugs Helgasonar í þáttunum Gulli byggir. Gunnlaugur segist reyna að varpa réttu ljósi á venjuleg vinnubrögð Íslendinga og þátturinn sé íslenskur raunveruleikaþáttur.

Vinnueftirlitið hefur gert alvarlegar athugasemdir við vinnulag í sjónvarpsþáttunum Gulli byggir sem sýndir eru á RÚV. Vinnueftirlitinu þykja aðferðir þáttastjórnandans oft og tíðum stórhættulegar og bendir á að einföldum vinnureglum á byggingasvæði sé ekki fullnægt.

Þættinum stjórnar Gunnlaugur Helgason, húsasmíðameistari og leikari. Hann segir athugasemdir Vinnueftirlitsins eiga rétt á sér enda reyni hann í þáttunum að endurspegla vinnubrögð íslenskra iðnaðarmanna sem hann segir að séu stundum glæfraleg.

„Þessi þáttur er pínulítill íslenskur raunveruleikaþáttur og fjallar um hlutina eins og þeir eru,“ segir Gunnlaugur. „Það er svo gaman að þessu því það hefur aldrei verið neitt í sjónvarpinu sem fjallar um byggingar eða lagfæringar á húsum. Svo loksins þegar það gerist þá dúkkar þetta allt upp.“

Gulli tekur þessari gagnrýni fagnandi og bendir á að margt megi betur fara í vinnubrögðum iðnaðarmanna á Íslandi. „Þetta er þáttur um hlutina eins og þeir eru en ekki um hlutina eins og þeir ættu að vera. Ég er búinn að tala um það fjórum eða fimm sinnum að fólk eigi að nota öryggisbúnað.“

Í athugasemd Vinnueftirlitsins er það meðal annars gagnrýnt að þáttastjórnandinn hafi unnið á þaki húss án þess að hafa nokkra fallvörn. Í einu tilviki lá við slysi þar sem hann var nærri dottinn. Þá er bent á glæfraleg vinnubrögð þegar mænisás var hífður þannig að fólk stóð undir. Það sama má segja um þegar burðarbita var lyft þannig að mikið ójafnvægi var á honum. Starfsmenn hafi svo nýtt handafl langt yfir höfuðhæð sinni svo veruleg hrun- og fallhætta skapaðist.

Fleira er tínt til, svo sem eins og röng notkun stiga, lítil notkun á öryggishjálmum og annað slíkt.

Gulli bendir á að það sé hlutverk Vinnueftirlitsins að gera athugasemdir við þessa hluti en hann segist ekki alveg sammála öllu því sem fram kemur í athugasemdinni. „Þetta er bara hið besta mál því það er aldrei of varlega farið. Þetta er allt saman gott og gilt,“ segir Gulli. „Ég er kannski ekki endilega sammála öllu því sem stendur í athugasemdinni en það er örugglega hægt að skoða þetta og setja út á vinnubrögðin.“

„Það er kannski erfitt að orða þetta svona, að það sé meiri glannaskapur en gengur og gerist,“ segir Gulli. „Hann er raunar rosalegur oft. Ég hef orðið vitni að meiri glannaskap en þessu.“birgirh@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×