Innlent

Stukku til þegar þeir sáu hús nágrannans brenna

Vinnudagurinn eftir slökkvistarfið var erfiður hjá Erlingi Snæ en ljósmyndari náði honum í gær útsofnum, óbrunnum og hressum. Fréttablaðið/Stefán
Vinnudagurinn eftir slökkvistarfið var erfiður hjá Erlingi Snæ en ljósmyndari náði honum í gær útsofnum, óbrunnum og hressum. Fréttablaðið/Stefán
Stundum heyrum við látlausar fréttir um bruna í einbýlishúsum og hvernig slökkviliðinu hafi tekist greiðlega að slökkva eldinn. Stundum vantar þó dramatískan kafla í slíkar fréttir þar sem nágrannar leggja líf og limi að veði. Þetta var reyndin þegar eldur kom upp í tveggja hæða íbúðarhúsi í Selbrekku í Kópavogi aðfaranótt 6. júlí síðastliðinn. Þegar slökkviliðið kom að höfðu þeir Erlingur Snær Erlingsson og Jón Gunnar Kristinsson þegar ráðið niðurlögum eldsins.

„Konan mín vakti mig um klukkan hálf þrjú og sagði að það væri hús að brenna skáhallt fyrir neðan okkur,“ rifjar Erlingur Snær upp. Hann brá sér í brók og hljóp út meðan hún hringdi á neyðarlínuna. Þá þegar hafði Jón Gunnar tekið garðslöngu sína og byrjað að buna á eldinn sem var á efri hæð en hægt var að standa þar á sólpalli sem eldtungur náðu ekki til. Þegar Erlingur Snær kom að sprungu rúður og eldurinn endurnærðist af súrefninu sem hann náði þar með í. Þeir vissu ekki hvort einhver væri inni á efri hæðinni en svo reyndist ekki vera. Par var á neðri hæð en það komst út af eigin rammleik. „Þegar ég sé manninn með slönguna fer ég að velta fyrir mér hvernig ég gæti komið að liði svo ég lít í kringum mig og sé þá fljótlega lokaðan heitapott. Ég lyfti lokinu og þar eru þá 800 lítrar af kraftaverki. Þá er það að finna eitthvað til að bera það með en þá sá ég keramikpott með steinum sem ég hvolfdi og þá var ég kominn í gagnið.“

Meðan tvímenningarnir stóðu í ströngu áttuðu þeir sig ekki hvor á öðrum. „Þegar ég er búinn að fara nokkrar ferðir heyri ég hvatningaróp frá manninum með garðslönguna og átta mig þá á því að þar er vinur minn Jón Gunnar á ferð,“ segir Erlingur Snær.

Skömmu síðar koma tveir lögregluþjónar á vettvang. „Lögreglumaður hrópar „komið ykkur frá, þið eruð í stórhættu,“ en við vorum búnir að sjá árangurinn af þessu hjá okkur svo við sögðum honum bara að koma og leggja okkur lið því þetta væri að klárast og lögregluþjónninn gerði það.“

Erlingur Snær var sendur undir læknishendur að björgunarstarfi loknu og svaf ekkert um nóttina og segist hafa komið úfinn og þjakaður til vinnu um morguninn. Eigendur íbúðarinnar verðlaunuðu svo tvímenninganna með gjafakorti á Hótel Rangá þar sem þeir geta dvalið með spúsum sínum og borðað eins og keisarar. „Það var rausnarlega gert hjá þeim en vænst þótti mér um faðmlagið sem ég fékk og hjartahlýjar þakkirnar,“ segir Erlingur.

jse@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×